Pakkaferðir

Pakkaferð er samsetning a.m.k. tveggja mismunandi tegunda ferðartengdrar þjónustu vegna sömu ferðar, að uppfylltum nokkrum skilyrðum.

        • Ferðin er sett saman af einum seljanda, þ.m.t. að beiðni eða eftir óskum ferðamanns, áður en einn samningur er gerður eða
        • þjónustan, óháð því hversu margir samningar eru gerðir, er:
            o  keypt og valin á sama stað áður en ferðamaður samþykkir að greiða fyrir hana,
            o  boðin til sölu, seld eða krafist greiðslu fyrir hana á heildarverði,
            o  auglýst eða seld sem pakkaferð eða með hætti sem gefur slíkt til kynna,
            o  sett saman eftir að samningur er gerður og seljandi veitir ferðamanni rétt til að velja mismunandi tegundir ferðatengdrar þjónustu, eða
            o  keypt af mismunandi seljendum með hjálp samtengdra bókunarferla á netinu þar sem seljandinn, sem fyrsti samningurinn er gerður við, sendir nafn, greiðsluupplýsingar og tölvupóstfang ferðamannsins til annars eða annarra seljenda og samningur er gerður við þá innan 24 klst. frá staðfestingu bókunar fyrstu ferðatengdu þjónustunnar.

Með ferðatengdri þjónustu er átt við:
        a. flutningur farþega,
        b. gisting sem hvorki er í eðlilegum tengslum við flutning farþega né til búsetu,
        c. leiga bifreiða og bifhjóla sem krefjast ökuréttinda í A-flokki,
        d. önnur þjónusta við ferðamenn sem ekki er í eðlilegum tengslum við ferðatengda þjónustu skv. a–c-lið

Það telst ekki pakkaferð ef aðeins ein tegund ferðatengdrar þjónustu skv. a–c lið er samsett með annarri þjónustu við ferðamenn skv. d-lið ef sú þjónusta: a. nemur minna en 25% af virði samsettu þjónustunnar og er ekki mikilvægur þáttur hennar eða auglýst sem slík, eða b. er valin og keypt eftir að veiting ferðatengdrar þjónustu skv. a-c lið er hafin.

Í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018 er fjallað um réttindi ferðamanna og skyldur seljenda. Neytendastofa hefur eftirlit með lögunum að undanskyldum tryggingarákvæðunum sem heyra undir Ferðamálastofu.

Upplýsingarskylda og samningur um pakkaferð

Lögin leggja ríka upplýsingaskyldu á seljendur pakkaferða fyrir samningsgerð, í samningi um pakkaferð og áður en pakkaferð hefst. Áður en samningur um pakkaferð er gerður verður seljandi að upplýsa ferðamanninn á stöðluðu og sérstöku formi að um pakkaferð sé að ræða, helstu réttindi ferðamannsins og að hann njóti tryggingarverndar komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar seljanda. Auk þess ber seljanda að veita ferðamanni viðeigandi upplýsingar um ferðina, um seljandann og helstu skilmála.

Á seljanda hvílir sönnunarbyrði um að farið sé að kröfum laganna um upplýsingagjöf. Hafi skipuleggjandi, eða eftir atvikum smásali, ekki veitt ferðamanni upplýsingar um viðbótargjöld eða kostnað skal ferðamaður ekki bera þessi gjöld eða kostnað.

Algengt er orðið að ferðagögn séu að öllu leyti rafræn og má ætla að flestir ferðamenn óski eftir upplýsingum og gögnum með rafrænum hætti. Hins vegar er rétt að veita ferðamanni umbeðin gögn á pappír sé sérstaklega óskað eftir því og er þá sérstaklega horft til þess að þau gögn sem kveðið er á um í ákvæðinu eru mikilvæg ferðagögn, svo sem farmiðar og upplýsingar um brottfarartíma.

Framsal og breytingar á pakkaferð fyrir brottför

Ferðamanni er heimilt að framselja samning um pakkaferð og er nú sérstaklega tekið fram að tilkynning, á varanlegum miðli um framsal á samningi um pakkaferð, sem er send eigi síðar en sjö dögum áður en ferð hefst telst alltaf vera með hæfilegum fyrirvara. Skipuleggjandi eða smásali skal tilkynna framseljanda um raunverulegan kostnað vegna framsalsins, sem skal vera hæfilegur og sanngjarn, og leggja fram gögn því til staðfestingar. Skipuleggjanda eða smásala er aðeins heimilt að krefjast greiðslu sem svarar til raunverulegs kostnaðar sem hann verður fyrir vegna framsalsins.

Verðhækkanir á pakkaferð eru aðeins heimilar ef þess er geti í samningi og vegna breytinga á:
        • verði farþegaflutninga sem má rekja til breytinga á eldsneytisverðir eða öðrum gjöldum
        • sköttum eða gjöldum sem lögð eru á ferðatengda þjónustu sem er innifalin í ferðinni
        • gengi erlendra gjaldmiðla sem hafa áhrif á verð.

Þá er verðhækkun er aðeins heimil ef ferðamanni er í samningi um pakkaferð gefinn réttur til verðlækkunar af sömu ástæðum. Skipuleggjandi eða smásali skal tilkynna ferðamanni um allar verðhækkanir með skýrum og greinargóðum hætti, ásamt rökstuðningi fyrir hækkuninni og útreikningi, á varanlegum miðli, eigi síðar en 20 dögum áður en ferð hefst. Í þessu felst að síðustu 20 daga áður en ferð hefst er óheimilt að hækka verðið. Vilji ferðamaður ekki sætta sig við verðhækkun getur hann afpantað ferðina gegn greiðslu hæfilegs afbókunargjalds. Ef verðhækkun er nemur 8% eða meiru er þó um verulega breytingu að ræða og ferðamaður getur krafist fullrar endurgreiðslu innan 14 daga eða að þiggja í staðinn aðra sambærilega pakkaferð.

Skipuleggjandi og smásali geta ekki breytt pakkaferð nema heimild til breytinga komi fram í samningi. Sé gerð breytingu skal án tafar tilkynna ferðamanni, á varanlegum miðli, um fyrirhugaðar breytingar og hvort þær leiða til afsláttar á verði pakkaferðar, frest sem ferðamaður hefur til að svara og hvaða afleiðingar það hefur svari ferðamaður ekki innan frestsins. Ef breytingin telst veruleg og ferðamaður vill afpanta ferðina á hann rétt á fullri endurgreiðslu innan 14 daga eða að þiggja í staðinn aðra sambærilega pakkaferð.

Afpöntun og aflýsing pakkaferðar

 Ferðamaður getur afpantað pakkaferð, gegn greiðslu sanngjarnar þóknunar, áður en ferðin hefst. Heimilt er að tilgreina í samningi um pakkaferð sanngjarna þóknun sem tekur mið af því hversu löngu fyrir upphaf ferðarinnar afpantað er og áætluðum tekjumissi skipuleggjanda eða smásala. Sé ekki kveðið á um þetta í samningi skal þóknunin samsvara tekjumissi skipuleggjanda eða smásala. Fjárhæð þóknunarinnar getur því verið mismunandi eftir t.d. tegund ferðarinnar eða því með hversu löngum fyrirvara pakkaferðin er afpöntuð.

Ferðamanni ber ekki að greiða þóknun ef afpöntun er vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar, flutning farþega til ákvörðunarstaðar eða verðhækkunar umfram 8%. Skipuleggjanda eða smásala ber að endurgreiða ferðamanni innan 14 daga frá afpöntun. Óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður geta t.d. verið stríðsástand, útbreiðsla farsótta eða sjúkdóma, hryðjuverk, pólitískur óstöðugleiki eða aðrar aðstæður sem hafa afgerandi áhrif á ferðalög til viðkomandi staða.

Aflýsi skipuleggjandi eða smásali pakkaferð skal endurgreiða ferðamanni að fullu það sem hann hefur greitt fyrir ferðina. Í sumum tilvikum getur farðamaðurinn einnig átt rétt á skaðabótum. Skipuleggjandi eða smásali getur þó aflýst ferð gegn fullri endurgreiðslu og án greiðslu frekari skaðabóta
        • Í fyrsta lagi ef fjöldi skráðra þátttakenda er minni en sá lágmarksfjöldi sem tilgreindur er í samningi og skipuleggjandi tilkynnir ferðamanni um aflýsingu ferðarinnar innan tímamarka sem tilgreind eru í lögunum og taka mið af lengd ferðar.
        • Í öðru lagi ef skipuleggjandi eða smásali getur ekki efnt samninginn vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hann tilkynnir ferðamanninum um án ótilhlýðilegs dráttar fyrir upphaf ferðarinnar.

Framkvæmd pakkaferðar

 Skipuleggjandi og smásali bera sameiginlega og hvor í sínu lagi ábyrgð á framkvæmd þeirrar ferðatengdu þjónustu sem er innifalin í samningi um pakkaferð, hvort sem þjónustan er veitt af þeim eða öðrum þjónustuveitanda. Í því felst aukin neytendavernd og skýrleiki og ferðamenn geta þá hvort sem er leitað til skipuleggjanda eða smásala beri eitthvað útaf.

Skipuleggjandi eða smásali fá hæfilegan frest til að bæta úr vanefndum sem eru á framkvæmd samnings um pakkaferð. Ef úrbætur leiða til þjónustu sem er lakari að gæðum en tilgreint er í samningu um pakkaferð á ferðamaður rétt á afslætti sem jafngildir mismuninum á þeirri þjónustu sem samið var um og þeirri sem veitt var.

Ef skipuleggjandi eða smásali ræður ekki bót á vanefndum innan hæfilegs frests eða neitar að ráða bót á vanefndum getur ferðamaður sjálfur ráðið bót á þeim og krafið skipuleggjanda eða smásala um endurgreiðslu nauðsynlegs kostnaðar vegna þess. Ferðamaður getur ekki hafnað úrbótum skipuleggjanda eða smásala nema þær séu lakari að gæðum en það sem um var samið eða ef afsláttur er ófullnægjandi.

Skipuleggjanda eða smásala er skylt að sjá fyrir heimflutningi í þeim tilvikum sem ferðamaður riftir samningi með lögmætum hætti þegar um verulega vanefnd er að ræða. Þá skal veita ferðamanni aðstoð í þeim tilvikum sem hann óskar sérstaklega eftir því og jafnframt þegar röskun verður á ferð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.

Tefjist heimflutningur ferðamanns vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna, t.d. vegna eldgoss, ber skipuleggjanda eða smásala að sjá ferðmanni fyrir gistingu í 3 nætur.

TIL BAKA