Fara yfir á efnisvæði

Duldar auglýsingar

Þegar tilkynningu er miðlað gegn endurgjaldi og hún felur í sér kynningu á ímynd, vöru eða þjónustu þá er hún auglýsing. Mikið af því efni sem birtist í fjölmiðlum, bloggum og öðrum samfélagsmiðlum teljast því auglýsingar samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005.

Margir lesendur átta sig ekki á að bloggarar fá gefins vörur eða fá greitt fyrir að fjalla um tilteknar vörur eða þjónustu. Þá getur oft verið erfitt fyrir lesendur dagblaða og tímarita að átta sig á því hvenær greitt er fyrir umfjöllun og hvenær ekki. Ef neytendur átta sig ekki á þeim skilaboðum sem komið er á framfæri með markaðssetningu þá eru þeir síður í aðstöðu til þess að taka gagnrýna og upplýsta ákvörðun um viðskipti. Neytendur eiga rétt á því að vita hvenær verið er að reyna að selja þeim vöru eða þjónustu og því eru duldar auglýsingar bannaðar bæði hér á landi og á Evrópska efnahagssvæðinu.

Samkvæmt 6. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 skulu auglýsingar þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla. Þá mega auglýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra. Samkvæmt 11. tölulið reglugerðar um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir nr. 160/2009 er óheimilt að nota ritstjórnarefni úr miðlum til að auglýsa vöru þegar söluaðilinn borgar fyrir auglýsinguna og lætur þetta ekki koma fram í auglýsingunni á myndum eða með hljóði sem neytandinn getur auðveldlega borið kennsl á.

Ef brotið er gegn um lögum eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með duldum auglýsingum getur það haft afleiðingar. Samkvæmt IX. kafla laganna getur Neytendastofa gripið til aðgerða gegn viðskiptaháttum sem brjóta í bága við ákvæði laganna. Aðgerðir Neytendastofu geta falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði. Neytendastofa getur líka sektað einstaklinga, félög og opinbera aðila sem eru í atvinnurekstri og brjóta gegn lögunum.

Neytendastofa hefur gefið út leiðbeiningar til fjölmiðla og bloggara um duldar auglýsingar. Markmið Neytendastofu með leiðbeiningum er að sýna fjölmiðlum og bloggurum að afar auðvelt er að halda sig réttu megin við lögin. Leiðbeiningarnar má nálgast hér. Ef brotið er gegn um lögum eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu getur það haft afleiðingar fyrir þig eða fyrirtæki þitt. Samkvæmt IX. kafla laganna getur Neytendastofa gripið til aðgerða gegn viðskiptaháttum sem brjóta í bága við ákvæði laganna. Aðgerðir Neytendastofu geta falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði.

Neytendastofa getur líka sektað einstaklinga, félög og opinbera aðila sem eru í atvinnurekstri og brjóta gegn lögunum.
TIL BAKA