Fara yfir á efnisvæði

Verð í auglýsingum

 Í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 er fjallað um þær upplýsingar sem eiga að koma fram í auglýsingum, þó að teknu tilliti til þess auglýsingamiðils sem nýttur er og eftir því sem við á. Vefsíður fyrirtækja falla undir ákvæðin og því eiga þær upplýsingar sem tilgreina á í auglýsingum að koma fram á vefsíðum. Eitt af því sem fram á að koma er endanlegt verð, með virðisaukaskatti og öðrum tilfallandi gjöldum. Ef af einhverjum ástæðum er ekki hægt að gefa upp endanlegt verð, t.d. ef við verðið bætist flutningskostnaður, verður þó að greina frá því að sá kostnaður komi til með að bætast við.

Við mat á því hvort skylt sé að gefa upp verðið er m.a. litið til þess hversu stór auglýsingin er og hversu mikið rými er fyrir upplýsingar. T.d. eru gerðar strangari kröfur til þess hvaða upplýsingar eru settar fram á vefsíðum fyrirtækja heldur en í skjáauglýsingum. Þannig er skylda að tilgreina verð á vöru á vefsíðu en ekki endilega í skjáauglýsingum. Auk þess er litið til þess hvaða upplýsingar fyrirtækið hefur ákveðið að birta í auglýsingunni og hvaða upplýsingar sé rétt að taka fram samhliða því.

Hið sama á við þegar fyrirtæki auglýsa tilboð eða útsölur. Á fyrirtækinu hvílir ekki endilega skylda til að tilgreina verðið. Kjósi fyrirtækið að birta útsölu- eða tilboðsverðið ber því þó skylda til að birta einnig upphaflega verðið.

Ef vara er auglýst á sérstökum afborgunarkjörum, t.d. auglýst tiltekið verð á mánuði í ákveðinn fjölda mánaða, verður einnig að tilgreina heildarverðið með vöxtum og öllum kostnaði og staðgreiðsluverð vörunnar.

Rangt verð í auglýsingum
Oft koma upp spurningar um það hvort neytendur eigi rétt á að fá vörur á því verði sem auglýst er þegar rangt verð hefur verið tilgreint.

Verð í auglýsingum á að vera rétt og samræmi þarf að vera á milli myndar og verðs svo ekki sé brotið í bága við ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005.

Samkvæmt lögum nr. 57/2005 er ekki afdráttarlaus skylda til að tilgreina verð í öllum auglýsingum en þar sem verðs er getið skal það vera endanlegt. Samkvæmt því lítur Neytendastofa svo á að verð í auglýsingum skuli ávallt vera rétt og fyrirtæki verði að bera hallan af því ef auglýst er rangt verð. Eins og með verðmerkingar er þó undantekning frá því ef neytendum má vera ljóst að verðið sé augljóslega rangt.

Dæmi um ákvarðanir Neytendastofu vegna verðupplýsinga í auglýsingu:

        • Ákvörðun Neytendastofu nr. 23/2013 Auglýsingar Hringdu og ummæli framkvæmdastjóra félagsins í blaðagrein
        • Úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála í máli nr. 12/2012, kæra IP fjarskipta ehf. á ákvörðun Neytendastofu nr. 23/2012
        • Ákvörðun Neytendastofu nr. 16/2009 Kvartanir Nova ehf. og Og fjarskipta ehf. yfir auglýsingum Símans hf. með yfirskriftinni „Aðgerðaráætlun Símans fyrir fólkið og fyrirtækin“
        • Ákvörðun Neytendastofu nr. 7/2009 Kvörtun Símans hf. yfir auglýsingum Og fjarskipta ehf. á Vodafone Gull 

TIL BAKA