Fara yfir á efnisvæði

Afpöntun og aflýsing pakkaferðar

 Ferðamaður getur afpantað pakkaferð, gegn greiðslu sanngjarnar þóknunar, áður en ferðin hefst. Heimilt er að tilgreina í samningi um pakkaferð sanngjarna þóknun sem tekur mið af því hversu löngu fyrir upphaf ferðarinnar afpantað er og áætluðum tekjumissi skipuleggjanda eða smásala. Sé ekki kveðið á um þetta í samningi skal þóknunin samsvara tekjumissi skipuleggjanda eða smásala. Fjárhæð þóknunarinnar getur því verið mismunandi eftir t.d. tegund ferðarinnar eða því með hversu löngum fyrirvara pakkaferðin er afpöntuð.

Ferðamanni ber ekki að greiða þóknun ef afpöntun er vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar, flutning farþega til ákvörðunarstaðar eða verðhækkunar umfram 8%. Skipuleggjanda eða smásala ber að endurgreiða ferðamanni innan 14 daga frá afpöntun. Óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður geta t.d. verið stríðsástand, útbreiðsla farsótta eða sjúkdóma, hryðjuverk, pólitískur óstöðugleiki eða aðrar aðstæður sem hafa afgerandi áhrif á ferðalög til viðkomandi staða.

Aflýsi skipuleggjandi eða smásali pakkaferð skal endurgreiða ferðamanni að fullu það sem hann hefur greitt fyrir ferðina. Í sumum tilvikum getur farðamaðurinn einnig átt rétt á skaðabótum. Skipuleggjandi eða smásali getur þó aflýst ferð gegn fullri endurgreiðslu og án greiðslu frekari skaðabóta
        • Í fyrsta lagi ef fjöldi skráðra þátttakenda er minni en sá lágmarksfjöldi sem tilgreindur er í samningi og skipuleggjandi tilkynnir ferðamanni um aflýsingu ferðarinnar innan tímamarka sem tilgreind eru í lögunum og taka mið af lengd ferðar.
        • Í öðru lagi ef skipuleggjandi eða smásali getur ekki efnt samninginn vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hann tilkynnir ferðamanninum um án ótilhlýðilegs dráttar fyrir upphaf ferðarinnar.

TIL BAKA