Fara yfir á efnisvæði

Markaðsefni um fasteignalán

Auglýsingar
Gerðar eru sérstakar kröfur um upplýsingar í auglýsingum um fasteignalán til neytenda. Lánveitendur geta með auglýsingum vakið athygli því að þeir bjóði fasteignalán til neytenda án þess að frekari upplýsingar um kjör komi fram en ef einhverjar forsendur um lánið eru veittar í auglýsingunni, t.d. vextir, kostnaður eða mánaðarlegar afborganir, skal birta viðeigandi upplýsingar. Í lögunum er kveðið á um að eftirfarandi upplýsingar skuli koma fram:

    • nafn lánveitanda eða lánamiðlara,
    • að samningurinn verði tryggður með veði eða annarri tryggingu í íbúðarhúsnæði
    • útlánsvextir ásamt lýsingu á öllum kostnaði
    • heildarfjárhæð láns miðað við gefnar forsendur og lánshlutfall
    • árleg hlutfallstala kostnaðar
    • lánstími
    • fjárhæð afborgana
    • heildarfjárhæð sem neytandi skal greiða
    • fjöldi afborgana og
    • viðvörun um að breyting á vöxtum, gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu geti haft áhrif á heildarfjárhæð sem neytandi skal greiða.

Upplýsingarnar skulu veittar með lýsandi dæmi.

Almennar upplýsingar um lánaframboð
Í lögum nr. 118/2016 koma fram þau nýmæli að lánveitendur skulu tryggja að neytendur hafi alltaf aðgang að skýrum almennum upplýsingum um lánaframboð á pappír eða öðrum varanlegum miðli eða rafrænt. Í lögunum er kveðið á um að í þessum upplýsingum skuli koma fram:

    • nafn, kennitala og heimilisfang útgefanda upplýsinganna,
    • í hvaða tilgangi nýta má lán,
    • tegundir trygginga,
    • mögulegur lánstími,
    • tegundir útlánsvaxta,
    • lýsing á einkennum verðtryggðra lána,
    • viðkomandi erlendur gjaldmiðill
    • skýringardæmi um heildarfjárhæð láns, veðsetningarhlutfall, heildarlántökukostnað, heildarfjárhæð sem greiða skal og árlega hlutfallstölu kostnaðar,
    • annar hugsanlegur kostnaður,
    • þeir kostir sem í boði eru við endurgreiðslu, þ.m.t. fjöldi, tíðni og fjárhæð reglulegra endurgreiðslna,
    • ef við á, skýr yfirlýsing um að þó farið sé að skilmálum sé ekki tryggt að heildarfjárhæð láns verði endurgreidd á lánstímanum,
    • skilmálar vegna greiðslu fyrir gjalddaga,
    • hvort meta þurfi viðkomandi fasteign,
    • viðbótarþjónusta sem neytandi er skuldbundinn til að kaupa og
    • almenn viðvörun umhugsanlegar afleiðingar þess ef ekki er staðið í skulum með lánið.

Í lögunum er einnig lögð skylda á lánveitendur til að hafa reiknivélar á vefsíðum sínum þar sem neytendur geta sett inn viðeigandi forsendur til þess að geta borið saman árlega hlutfallstölu kostnaðar, fjárhæð reglulegrar endurgreiðslu, niðurgreiðslutöflu og heildarfjárhæð sem hann skal greiða samkvæmt lánaframboði lánveitanda.
TIL BAKA