Fara yfir á efnisvæði

Bönd og reimar í barnafötum

08.01.2015

Fréttamynd

Neytendastofa tók þátt í evrópsku samstarfsverkefni á síðasta ári þar sem skoðað var hvort að bönd og reimar í barnafatnaði væru of löng. Á hverju ári verða börn fyrir slysum um allan heim vegna þess að bönd eða reimar hafa verið of löng, í fatnaði. Vegna þessa hafa þau flækst t.d. í reiðhjólum, hurðum og í leikvallartækjum. Atvik sem þessi geta leitt til alvarlegra áverka og jafnvel dauða. Vegna þessa var ákveðið að fara í átak fyrir 4-5 árum og síðan aftur á síðasta ári, til þess að athuga hvort að sá fatnaður sem boðinn er neytendum í Evrópu sé öruggur og uppfylli þau skilyrði sem gerð eru til hans. Skoðaðar voru um 6000 flíkur. Þar af voru tæplega 700 skoðaðar nánar og mældar. Hér á landi var lögð áhersla á að skoða íslenska framleiðslu. Skoðaðar voru um 500 flíkur, af þeim voru 58 teknar til nánari skoðunar og mældar. Af þeim reyndust 48% vera með of löng bönd eða reimar. Í kjölfarið voru innkallað vörur frá tíu fyrirtækjum þar af þurfti Neytendastofa að taka eina stjórnvaldsákvörðun þar sem fyrirtæki var gert að innkalla 4 gerðir af barnafatnaði.

Algengasti annmarkinn var sá að í fötum fyrir börn á aldrinum 0-7 ára (hæð 1,34 m) voru bönd í hettum eða hálsmáli en bannað er að hafa bönd í þeim flíkum.  Fyrir börn á aldrinum 7-14 ára mega böndin ekki vera lengri en 7,5 cm í hettu eða hálsmáli.

Neytendastofa hvetur fólk til að athuga föt barna sinna og fjarlægja eða stytta bönd og reimar sem ekki uppfylla kröfur varðandi barnaföt, líkt og kemur fram í myndbandinu.

TIL BAKA