Fara yfir á efnisvæði

Tæknilegar tilkynningar

Árið 2000 gengu í gildi lög nr. 57/2000 um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vöru og fjarþjónustu. Lögin eru sett í þeim tilgangi að renna sterkari stoðum undir framkvæmd samningsskuldbindinga Íslands, varðandi skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu, sbr. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir.

Tilgangurinn með upplýsingaskiptum þessum er að koma í veg fyrir að tæknilegar viðskiptahindranir myndist í milliríkjaviðskiptum vegna ólíkra krafna og/eða viðmiðana í landsreglum einstakra ríkja. Á hverju ári berast hingað til lands um 800 tilkynningar á tæknilegum reglum frá Eftirlitsstofnun EFTA sem upprunnar eru í ríkjum Evrópusambandsins og svipaður fjöldi tilkynninga berst frá Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Íslenskum stjórnvöldum ber einnig að tilkynna með  skipulegum hætti drög að tæknilegum reglum sem fyrirhugað er að setja hér á landi. Senda þarf drögin á íslensku og ensku í Word-skjölum ásamt útfylltu tilkynningarformi(leiðbeiningar um útfyllingu eyðublaðsins má sjá hér).

Utanríkisráðuneytið hefur útbúið leiðbeiningar um tilkynningar á tæknilegum reglum sem nálgast má hér.

Neytendastofa, í umboði utanríkisráðuneytisins, annast ákveðna þjónustu-, samræmingar- og framkvæmdaþætti er varða skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur í samræmi við reglugerð 733/2000. Má þar nefna skipulega flokkun, dreifingu og kynningu tilkynninga sem hingað berast erlendis frá og undirbúning að tilkynningum íslenskra stjórnvalda um fyrirhugaða setningu tæknilegra reglna. Tengiliður Neytendastofu á sviði tæknilegra reglna er Matthildur Sveinsdóttir, sími 510 1100.

Hér er hægt að nálgast allar tæknilegar reglur sem tilkynntar hafa verið samkvæmt upplýsingakerfi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á grundvelli tilskipana 98/34/EB og (ESB) 2015/1535.

 

TIL BAKA