Fara yfir á efnisvæði

Árleg hlutfallstala kostnaðar - ÁHK

ÁHK sýnir allan kostnað af láni á ársgrundvelli í einni prósentutölu. Neytendur geta þannig borið ÁHK nokkurra lána saman og fundið út hvaða lánveitandi hefur hagstæðasta lánstilboðið. Þegar neytendur ákveða hvaða lán hentar þeim best þarf þó alltaf að skoða fleiri þætti en kostnaðinn.

Þegar ÁHK er skoðuð þarf þó að hafa í huga að hún er reiknuð út þegar samningur er gerður. Ef lán ber breytilegan kostnað, t.d. ef það er verðtryggt eða ber breytilega vexti, breytist ÁHK yfir lánstímann. Þetta þarf að hafa í huga þegar ÁHK fyrir ólík lán er borin saman.

Þegar lán bera breytilega vexti á lánveitandi auk hefðbundnar ÁHK að veita upplýsingar um viðbótar-ÁHK. Þar er gert ráð fyrir að vextir verði eins háir og þeir hafa hæstir verið frá lánveitanda á sambærilegum lánum.

Lánveitendur sem bjóða fasteignalán eiga að hafa reiknivélar á vefsíðum sínum þar sem hægt er að setja inn ýmsar forsendur varðandi lánið og fá þar m.a. reiknaða út ÁHK. Neytendur geta þannig skoðað hvaða áhrif ólíkar breytur hafa á ÁHK. Því lægri sem ÁHK er því hagstæðara er lánið.

ÁHK á að koma fram í áðurnefndri reiknivél, á stöðluðu eyðublaði og í sumum auglýsingum.

TIL BAKA