Fara yfir á efnisvæði

Fasteignalán

Fasteignalán til neytenda er lán sem einstaklingur tekur ótengt atvinnustarfsemi sinni, hjá einhverjum sem hefur atvinnu af því að veita lán, og er annað hvort:

    •     tryggt með veði eða annarri tryggingu í, eða tengt, íbúðarhúsnæði
          eða
    •     tekið í þeim tilgangi að kaupa eða viðhalda eignarrétti á fasteign

Lög um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 veita neytendum vernd við lánsviðskiptin og tryggja þeim upplýsingar auk þess sem lánveitendum og lánamiðlurum eru settar reglur til að tryggja faglega vinnubrögð og stuðla að ábyrgri lánveitingu.

Eftirliti með lögunum er skipt á milli Neytendastofu og Fjármálaeftirlitsins. Neytendastofa sinnir eftirliti með þeim þáttum sem snúa að samskiptum við neytendur en Fjármálaeftirlitið að þáttum sem snúa að starfsemi lánveitenda og lánamiðlara.

Eftirlit Neytendastofu
Eftirliti með lögum fasteignalán til neytenda er skipt milli Neytendastofu og Fjármálaeftirlitsins. Þannig sinnir Fjármálaeftirlitið eftirliti með ákvæðum sem snúa að innri starfsemi lánveitenda og lánamiðlara; s.s. hæfi starfsfólks, rekstrarformi, lánaráðgjöf og veðsetningarhlutföllum auk þess sem Fjármálaeftirlitið veitir starfsleyfi, þar sem við á. Nánar um eftirlit Fjármálaeftirlitsins má finna á vefsíðu þess, www.fme.is

Eftirlit Neytendastofu snýr hins vegar að því hvort lánveitendur virði réttindi neytenda samkvæmt lögunum; s.s. hvort fullnægjandi upplýsingar séu veittar og hvort almenn réttindi neytenda samkvæmt lögunum séu virt. Í þessu samhengi getur Neytendastofa tekið á því gagnvart lánveitendum og lánamiðlurum ef þeir uppfylla ekki skyldur sínar. Neytendastofa getur hins vegar ekki fjallað um einkaréttarlegan ágreining. Í tilfelli sem þessu gæti stofnunin af þeim sökum ekki sagt til um það hvaða afleiðingar það hafi fyrir einstaka neytanda ef honum voru ekki veittar fullnægjandi upplýsingar. Neytendastofa getur lagt sektir á lánveitendur og lánamiðlara sem brjóta gegn lögunum.

Hvert skal leita?

Ef neytendur telja á sér brotið geta þeir óskað eftir upplýsingum frá Neytendastofu. Ef neytandi telur lánveitandi hafi brotið gegn réttindum sínum getur verið gott að byrja á að hafa samband við viðkomandi lánveitanda og leita úrlausna. Gangi það ekki eftir er hægt að hafa samband við Neytendastofu. Neytandinn gæti einnig þurft að fara með málið fyrir úrskurðanefnd í viðskiptum við fjármálafyrirtæki til þess að fá leyst úr fjárkröfum.

Hægt er að hafa samband við Neytendastofu í gegnum rafrænt ábendingakerfi stofnunarinnar, með því að senda tölvupóst á póstfangið: postur@neytendastofa.is eða í síma 510-1100 á símatíma, milli 9 og 12 alla virka daga.

TIL BAKA