Fara yfir á efnisvæði

Breytingar eru hafnar á rafkerfi íbúða á fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli.

10.07.2007

Föstudaginn 6. júlí sl. undirritaði Forseti Íslands lög þess efnis að heimilt sé að nota raflagnir og rafföng í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli til 1. október 2010. Eins og kunnugt er uppfylltu raflagnir og rafföng á varnarsvæðinu ekki þær kröfur sem gerðar eru í íslenskum lögum og reglugerðum um rafmagnsöryggi.

Þrátt fyrir ákvæði nýju laganna hefur Þróunarfélagið nú þegar hafið endurbætur á rafkerfi íbúða á svæðinu í samræmi við íslenskar reglur um rafmagnsöryggi og fyrirmæli Neytendastofu. Stefnt er það því að þessum endurbótum verði að mestu lokið áður en íbúðirnar verða teknar í notkun í haust.
Frekari breytingar á rafkerfi alls svæðisins til samræmis við íslenskar reglur verða síðan útlistaðar í verkáætlun sem Þróunarfélagið mun fljótlega leggja fram til Neytendastofu.

Þá mun Þróunarfélagið á næstu dögum tilnefna umsjónarmann öryggismála sem mun starfa náið með Neytendastofu að frekari úrbótum rafmagnsöryggismála á svæðinu.

 

TIL BAKA