Fara yfir á efnisvæði

Lifandi ljós getur verið lifandi hætta

19.12.2007

Neytendastofa vill að gefnu tilefni brýna fyrir neytendum að fara varlega með kerti og kertaskreytingar. Allt of marga bruna og tjón má rekja til þess að það hafi kviknað í  út frá kertum og oftar en ekki liggur orsökin í því að kerti voru látin loga án eftirlits. Sjá nánar hér

Hér að neðan má finna nokkur góð ráð til neytenda um notkun kerta:

Yfirgefið aldrei vistarverur þar sem kertaljós logar

  • Látið kerti aldrei loga innanhúss án eftirlits

Gætið vel að staðsetningu kertaljóss

  • Forðist að hafa kerti í dragsúgi
  • Vindsveipur eða gegnumtrekkur getur kveikt eld á ný
  • Forðist að koma kerti fyrir nálægt opnum glugga þar sem vindur getur sveiflað gluggatjöldum í kertalogann
  • Setjið kerti aldrei nálægt tækjum sem gefa frá sér hita s.s. sjónvarpi. Hiti frá tæki veldur aukinni hættu á óhappi

Hafið eftirfarandi sérstaklega í huga

  • Gætið þess að kerti séu föst í kertastjaka og að hann sé stöðugur og öruggur
  • Hafið ekki mishá kerti of nálægt hverju öðru. Hiti frá lægri kertum getur brætt hærri kerti 
  • Eftir að kertalogi hefur verið slökktur getur ennþá leynst glóð í kveiknum 
  • Almenn viðmiðun er að hafa a.m.k. 10 cm á milli kerta
  • Kertakveikur á ekki að vera lengri en 1 cm. Klippið af kveiknum svo að ekki sé hætta á að logandi kveikur detti af og brenni út frá sér
  • Treystið því aldrei að sjálfslökkvandi kerti slökkvi á sér sjálf.

Kennið börnum að umgangast kertaljós

  • Fyrir börn hefur kertaljós sérstakt aðdráttarafl. Brýnið fyrir börnum að fara ætíð varlega með eld og gætið þess að börn leiki sér ekki án umsjónar nálægt logandi kertum

Hvernig á að slökkva á kerti?
Aldrei má hella vatni á kerti, sérstaklega ekki útikerti. Best er að slökkva á kerti með því að nota kertaslökkvara. Þó eru til dæmi þess að áfram hafi rokið úr kveik kerta lengi á eftir að loginn var kæfður. Reykurinn er í sjálfu sér skaðlaus en fylsta ástæða til þess að hafa þetta í huga þegar slökkt er á kerti. Til þess að öruggt sé að eldur lifi ekki lengur í kertakveik og að vistarverur fyllist ekki að reyk geta neytendur slökkt með kertaslökkvara og síðan lagt blautan fingur utan um kertakveikinn.

Kertastjakar
Kertastjakar verða að vera úr óbrennanlegu efni sem leiðir ekki hita og eru stöðugir. Ekki öll ílát eru heppileg til nota sem kertastjakar og falleg glös eða ílát sem eru ekki sérstaklega ætluð undir kerti t.d. vermikerti þola e.t.v. ekki hitann frá kertinu. Notið því ekki hvað sem er undir keti.

Kertaskreytingar
Kertaskreytingar eru vinsælar en einnig eldfimar. Hafið kertaskreytingar ætíð á óeldfimu undirlagi t.d. úr gleri eða málmi og gætið að því að kertaloginn nái ekki til skreytingarinnar. Kerti brenna mishratt, jafnvel kerti úr sama pakka en oftast eru upplýsingar um brennslutíma á umbúðum kertanna sem gagnlegt er að kynna sér. Á markaðnum er einnig fáanleg eldtefjandi efni til að úða yfir skreytingar þannig að minni hætta er á eldsvoða ef kertalogi berst í skreytinguna.
Margir kjósa að föndra eigin skreytingar eða jafnvel bara skreyta kerti ein og sér. Nokkuð hefur færst í vöxt að líma servéttur sem skraut utan á kerti. Neytendastofa mælir ekki með slíku skrauti sökum eldhættu. Dæmi eru um að kviknað hafi í kertum sem eru með áföstu skrauti s.s. vanilustöngum, barri eða berjum þegar vaxið fer bráðnar og logi kertsins náið í skrautið.

Gelkerti
Gelkerti eru í glösum og í botni þeirra er ýmis konar skraut t.d. glimmer eða skeljar. Þetta skraut getur flotið upp þegar gelið í glasinu hitnar og verður fljótandi og því getur skrautið orðið að auka kveik eða einfaldlega brunnið þegar gelið brennur niður. Gætið þess því að staðsetja gelkerti á öruggu undirlagi. Gelkerti eru mjög heit lengi eftir að slökkt hefur verið á þeim og því er mikilvægt að þau séu ávallt staðsett þar sem börn ná ekki til, sérstaklega gelkerti sem eru með skrauti sem höfðar til barna.

Sjálfslökkvandi kerti
Til eru nokkrar gerðir af sjálfslökkvandi kertum. Kertin eiga að slökkva á sér sjálf þar sem kveikurinn endar. Minni gerðin af sjálfslökkvandi kertum eiga að hafa 1 cm slökkvihæð (kerti ætluð á jólatré) en slökkvihæðin fyrir önnur kerti er 2 cm. Notendur verða þó ætíð að hafa í huga að engin trygging er fyrir því að kertin slökkvi á sér sjálf og því ber að varast að treysta á það að þau slökkvi á sér sjálf t.d. ef sjálfslökkvandi kerti notuð í aðventukransa.

Kúlu- þríhyrnings og fígúrukerti
Kerti sem hafa slíka lögun eru afar viðkvæm fyrir trekk og við slíkar aðstæður brennur vax þeirra hraðar en um venjuleg kerti er að ræða. Slík kerti verða því að vera á tryggu undirlagi sem engin hætta er á að kvikní í út frá. Kveikurinn getur losnað, flotið með vaxinu og haldið þannig áfram að brenna á borði ef því er að skipta.

Húðuð kerti
Um er að ræða kerti sem eru húðuð með t.d. gull- eða silfurhúð. Húðuð kerti eiga það til að ósa meira en venjuleg kerti. Einnig eru dæmi um að húð slíkra kerta bráðni utan af kertunum. Fylgist því vel með kertunum og slökkvið strax ef þau byrja að ósa.

Vermikerti/sprittkerti
Eru um margt frábrugðin venjulegum kertum og þurfa sérstakrar aðgæslu við. Vaxið í þeim verður fljótandi stuttu eftir að kveikt er á kertinu og því er ekki ráðlegt að færa það úr stað meðan logar á kertinu. Látið slík kerti ætíð brenna út af sjálfu sér eða slökkvið með kertaslökkvara. Notið aldrei vatn. Gætið þess að hafa vermikerti í kertastjaka sem þolir háan hita. Setið vermikerti aldrei beint á dúk eða borð.

Útikerti
Varasamt er að setja fleiri en eitt útikerti þétt saman og kveikja á þeim þannig. Útikerti skal undantekningarlaust standa á óbrennanlegu undirlagi og aldrei á tréplötu, trépall eða öðru auðbrennanlegu undirlagi. Útikerti loga flest eingöngu á kveiknum en þó eru til kerti sem allt yfirborð vaxins logar. Þá getur loginn náð allt að 50 cm hæð og slegist til í allar áttir. Snertið aldrei form útikerta með berum höndum. Eldur getur blossað upp ef vatn eða snjór slettist á vax kertisins. Æskilegt er að koma kertum þannig fyrir að þau sjáist vel, þar sem ekki er hætta á að börn og fullorðnir reki sig í þau. Þeir sem klæðast víðum fatnaði þurfa að gæta sérstakrar varúðar í nánd við slík kerti.

TIL BAKA