Fara yfir á efnisvæði

Ástand verðmerkinga á höfuðborgarsvæðinu

16.07.2009

Í mars og apríl sl. kannaði Neytendastofa ástand verðmerkinga í 515 sérvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Verðmerkingar voru yfirleitt í góðu lagi inni í verslununum en ástandið í sýningargluggum var verulega ábótavant og átti það sérstaklega við um verslanir á Laugaveginum. Verslunum sem ekki voru með verðmerkingar í lagi var sent bréf þar sem farið var fram á að merkingar yrðu lagaðar í samræmi við lög nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og reglur um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar nr. 725/2008.

Niðurstöður könnunarinnar voru eftirfarandi: 
• Í sjö verslunum var verðmerkingum ábótavant bæði inni og í sýningarglugga, 
• Í sjö tilfellum var gerð athugasemd eingöngu vegna merkinga inni í verslun
• 78 verslanir voru með merkingar í lagi inni en voru með ófullnægjandi verðmerkingar í glugga.

Til samanburðar við síðustu könnun sem gerð var í október 2008 má t.d. nefna að farið var í 72 verslanir á Laugaveginum og reyndust 19 verslanir (28%) af þeim 68 verslunum sem voru með sýningarglugga vera með ómerktar vörur í glugga en í könnuninni núna í vor var farið í 91 verslun og voru 35 verslanir af 84 (42%) með ómerkt í glugga.

Í Smáralindinni var á síðasta ári farið í 55 verslanir og voru 16 af 47 (34%) með ómerkt í sýningarglugga en í vor var farið í 68 verslanir og voru aðeins 6 af 47 eða (13%) með ómerkt í glugga.

Í Kringlunni var á síðasta ári farið í 91 verslun og af þeim skoðaðir sýningargluggar í 74 verslunum og voru 16 (22%) með ómerkt en í vor var farið í 99 verslanir og þá voru 12 (13%) af 91 verslun með ómerkt í glugga. Þessar tvær verslunarmiðstöðvar hafa því stórbætt verðmerkingar sínar á milli kannana á meðan þær hafa versnað við Laugaveginn.
Einnig má geta þess að engin athugasemd var gerð við verðmerkingar í þeim 13 verslunum sem farið var í í verslunarkjarnanum Glæsibæ, Álfheimum.

Könnuninni var svo fylgt eftir í byrjun júní með því að heimsækja aftur þær 92 verslanir sem fengu bréf og athugað hvort þær hefðu orðið að tilmælum Neytendastofu. Í ljós kom að almennt hafa verslunareigendur gert það því aðeins níu höfðu enn ekki lagað verðmerkingar sínar og mega þær verslanir búast við að tekin verði ákvörðun um sektir skv. IX. kafla laga nr. 57/2005.

Ábendingum vegna rangra eða ófullnægjandi verðmerkinga má koma til Neytendastofu í gegnum Mínar síður á heimasíðu Neytendastofu.

TIL BAKA