Fara yfir á efnisvæði

Öryggi hjálma kannað í 11 löndum

14.07.2010

Neytendastofa tekur nú þátt í verkefni um öryggi hjálma á vegum PROSAFE, samstarfsnets evrópskra stjórnvalda á sviði vöruöryggis. Meginmarkmið verkefnisins er að tryggja að hjálmar fyrir neytendur sem markaðssettir eru innan EES séu öruggir, með réttar viðvaranir og leiðbeiningar.

Verkefnið nær yfir skíða-, reiðhjóla- og reiðhjálma en Neytendastofa hefur markaðseftirlit með hjálmum sem seldir eru neytendum til einkanota. Hjálmar sem markaðssettir eru hér á landi eiga að uppfylla kröfur reglugerðar nr. 635/1999, um persónuhlífar til einkanota, sem er í samræmi við tilskipun ESB um persónuhlífar. Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar verða hjálmar að vera CE-merktir og nauðsynlegar leiðbeiningar um notkun eiga að fylgja með á íslensku.

Starfsmenn Neytendastofu hafa á síðustu mánuðum farið í verslanir á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri sem selja skíða-, reiðhjóla- og reiðhjálma og  skoðað þá hjálma sem eru á boðstólum m.t.t. þess hvort þeir uppfylli kröfur fyrir markaðssetningu. Kannað er meðal annars hvort hjálmarnir séu CE-merktir, hvort merkingar á þeim séu fullnægjandi og hvort leiðbeiningar fylgi á íslensku. Í kjölfar skoðunar á markaði eru tekin sýnishorn af hjálmum sem send verða til evrópskrar rannsóknarstofu þar sem hjálmarnir verða prófaðir til að sannreyna öryggi þeirra.

Nánari upplýsingar um markaðssetningu hjálma og annarra persónuhlífa til einkanota má finna hér.

TIL BAKA