Fara yfir á efnisvæði

Vefsíðan fabriksoutlet.com

21.12.2010

Neytendastofu hefur borist ábending sænskra neytendayfirvalda í gegnum samevrópskt tilkynningakerfi stjórnvalda á sviði neytendamála. 

Samkvæmt ábendingunni hafa margir sænskir neytendur orðið fyrir ýmsum óþægindum í viðskiptum við vefverslunina Fabriksoutlet.com. Þannig hafa sumir neytendur ekki fengið keypta vöru afhenta eða fengið eftirlíkingar í stað þeirra vöru sem keypt var. Einnig hefur seljandi ekki virt rétt neytenda til að skila vöru í samræmi við lög þess efnis. Fyrirtækið hefur verið kært til lögreglu í Svíþjóð.

Að því tilefni bendir Neytendastofa íslenskum neytendum á að viðskipti við fyrirtækið geta verið varasöm.

Vill Neytendastofa benda á að sú skylda hvílir á vefverslunum að upplýsa neytendur um skilarétt við fjarsölu, sem er 14 dagar á Íslandi, og að veita neytendum greiðan aðgang að upplýsingum um sig. Einnig vill stofnunin benda á að verslanir á netinu hafa sömu skyldur gagnvart neytendum og almennar verslanir varðandi skilarétt neytenda á gölluðum vörum.

Sjá nánar umfjöllun um húsgöngu- og fjarsölu á heimasíðu Neytendastofu hér.

TIL BAKA