Fara yfir á efnisvæði

Athugun verðmerkinga á Vesturlandi

23.09.2011

Dagana 3. – 8. ágúst gerði Neytendastofa könnun á verðmerkingum í verslunum og þjónustufyrirtækjum á Akranesi og í Borgarnesi. Farið var í matvöruverslanir, sérvöruverslanir, hárgreiðslustofur, bílaverkstæði, bakarí, bensínstöðvar,  veitingastaði o.fl. Alls heimsótti Neytendastofa því 55 fyrirtæki á Akranesi og 30 í Borgarnesi. Af þessum fyrirtækjum reyndist verðmerkingum vera ábótavant í 21 fyrirtæki á Akranesi og 15 í Borgarnesi. Í kjölfar skoðunarinnar sendi Neytendastofa viðkomandi fyrirtækjum bréf og gaf þeim kost á að koma verðmerkingum í viðunandi horf.

Í byrjun þessa mánaðar heimsótti fulltrúi Neytendastofu aftur þau 36 fyrirtæki sem höfðu fengið athugasemdir í fyrri heimsókn Neytendastofu. Ljóst var að fyrri heimsókn Neytendastofu hafði tilætluð áhrif á flest fyrirtæki þar sem þau höfðu þá komið verðmerkingum í lag. Enn voru þó 10 fyrirtæki sem höfðu ekki bætt verðmerkingar sínar, sex á Akranesi og fjögur í Borgarnesi. Voru þetta annars vegar Verslunin Nína, Frumherji, Apótek Vesturlands og veitingastaðirnir Galito, Gamla Kaupfélagið og Thai-A á Akranesi og hins vegar Skeljungur, Landnámssetur Íslands, Bifreiðaþjónusta Harðar og Hyrnan í Borgarnesi.

Neytendastofa hefur sent síðastgreindum aðilum bréf vegna þessa og ef þurfa þykir verða teknar ákvarðanir um viðurlög vegna slæms ástands verðmerkinga.

TIL BAKA