Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingar sérvöruverslana í smáverslunarkjörnum

28.06.2013

Fulltrúar Neytendastofu hafa í júní verið að taka út verðmerkingar í verslunum og sýningargluggum sérvöruverslana í þjónustukjörnum á höfuðborgarsvæðinu. Skoðað var í verslunum í Mjóddinni, Glæsibæ, Firðinum í Hafnarfirði, Austurveri og Suðurveri. Í heildina var farið í 41 fyrirtæki og voru 32 þeirra með vörur í sýningarglugga.

Í Mjódd var farið í 12 fyrirtæki. Verðmerkingar voru ekki í lagi í 25% tilvika. Verðmerkingar inni í verslun voru ekki í lagi hjá Breiðholtsblómum og báðar skartgripaverslanirnar , Gullsmiðurinn og Gull-úrið, voru með ófullnægjandi verðmerkingar í sýningarglugga.  Árið 2009, þegar Neytendastofa skoðaði síðast verðmerkingar í Mjódd, var  aðeins ein verslun  með óverðmerktar vörur eða þriðjungi minna en nú. Þessa vegna er mikilvægt að halda eftirliti á verðmerkingum og að neytendur sendi Neytendastofu ábendingar um verslanir sem eru með ófullnægjandi merkingar.

Í Glæsibæ var farið í 12 fyrirtæki og var ekki nægilega verðmerkt í 33% verslana. Í verslunum Dalíu og Ólavíu og Olíver var verðmerking í verslunum ekki í lagi.  Í verslun Útilíf vantaði verðmerkingar á vörur í útstillingu. og hjá Cha Cha þar sem verðmerkingar í sýningargluggum voru til staðar en gerðar voru athugasemdir við að þær væri ekki nægilega sýnilegar. Samkvæmt  síðustu skoðun Neytendastofu, frá árinu 2009, voru allar verslanir með verðmerkingar í lagi.

Í Firðinum, Hafnarfirði voru verðmerkingar ekki í lagi í versluninni Herra Hafnarfjörður og verðmerkingar vantaði í sýningarglugga verslunarinnar Anas. En í athugun frá árinu 2009  var meirihluti sýningarglugga óverðmerktur svo þar eru verulegar framfarir.

Farið var í fjórar verslanir í Austurver og tvær í Suðurver á báðum stöðum voru verðmerkingar í góðu standi og til fyrirmyndar

Neytendastofa hvetur verslunareigendur til að haga verklagi með þeim hætti að verðmerkingar í sýningargluggum verði jafn sjálfsagður hlutur eins og verðmerkingar í versluninni sjálfri, enda er það allra hagur og sjálfsagður réttur neytenda.

 

TIL BAKA