Fara yfir á efnisvæði

Helstu sérfræðingar Evrópu á sviði mælifræði funduðu á Íslandi.

15.07.2013

EURAMET, samtök landsmælifræðistofnana (NMI) í Evrópu, hélt í fyrsta skipti í sögu samtakanna aðalfund í Reykjavík 27.-31. maí 2013. Þar funduðu helstu sérfræðingar Evrópu á sviði mælifræði  og kynntu m.a  athyglisverðar rannsóknir sem verið er að vinna að. Aðildarþjóðir EURAMET eru 37 að Íslandi meðtöldu. Neytendastofa er aðili að EURAMET fyrir hönd Íslands og ber m.a. árbyrgð á þróun og viðhaldi landsmæligrunna sem eru til, varðveittir á Íslandi. Neytendastofa ber ábyrgð á að tryggja rekjanleika til alþjóðlegra mæligrunna og að alþjóðlega SI mælieiningakerfið sé notað á Íslandi. Þannig varðveitir Neytendastofa t.d. íslenska kílógrammið sem er grunnurinn að því að mælingum á Íslandi er treyst í viðskiptum við önnur ríki. Eitt af meginmarkmiðum EURAMET er að efla vísindi og rannsóknir einkum með því að þróa og útfæra evrópsku mælifræðirannsóknaráætlunina European Metrology Research Programme (EMRP).

Mælifræði skiptist í iðnaðar-, vísinda- og lögmælifræði og var fjallað um rannsóknir á öllum sviðunum á fundinum.

Nákvæmari mælingar á lofti, vatni og mengun
Á fundinum var m.a. kynnt rannsókn þar sem verið er að vinna að traustari rekjanleika og  nákvæmari mælingum á lofti, vatni og mengun svo hægt sé að skoða með betri nákvæmni loftslagsbreytingar á jörðinni og þar með mælingum til að kortleggja hringrás hafsins. Meiri koltvísýringur í andrúmslofti leiðir til þess að aukinn koltvísýringur leysist upp í sjónum sem tengist auknu saltstigi í honum. Nauðsynlegt er að skilja betur eiginleika vatnsins, eins og saltstigsins, vegna áhrifa þess á hafstrauma sem er áhrifavaldur á loftslag jarðar. Með því að tengja mælingar á salti við mælingar á þéttleika, sem eru rekjanlegar til SI kerfisins er hægt að bæta áreiðanleika mælinga til lengri tíma og spá með meiri nákvæmni en áður um breytingar á hafstraumum.

Óvissu útreikningar á útfjólubláum geislum sólar
Önnur rannsókn á vegum EURAMET felst í því að minnka óvissu í útreikningum á útfjólubláumgeislum sólar. Geislarnir geta myndað efni í andrúmsloftinu sem breyta umhverfinu. Breytingar í magni útfjólublárra geisla sem ná til yfirborðs jarðar geta haft áhrif á loftslagbreytingar. Hingað til hafa mælingar á þessum áhrifum verið með 5% óvissu sem er of hátt hlutfall til að uppgötva breytingar eða spá fyrir um þær í framtíðinni. Verið er að vinna að því að ná óvissunni niður í 2% og um leið að hanna betri tækni. 

Lífeldsneyti og orkurannsóknir
Aðilar að EURAMET samstarfinu eru að gera rannsóknir m.a. með lífeldsneyti, hvernig hægt sé að gera kjarnorkuver öruggari, ná betri nýtni virkjana og framtíð lýsingar, en verið er að kanna leiðir til að sýna fram á kosti SSL lýsingar. Einnig er verið að rannsaka leiðir til að flytja orku, hvernig hægt sé að draga úr og flytja orku á milli heimila og orkuvera á hagkvæmari hátt. Eins og staðan er í dag er t.d.  ekki hægt að fylgjast með hversu mikil orka tapast við flutningana.

Iðnaðarrannsóknir
Á aðalfundinum var einnig fjallað um iðnaðarrannsóknir m.a. hvernig á að mæla hitastig yfir 1000°C með nákvæmari mælingum, hvort hægt sé að minnka orkunotkun og losun gróðurhúsaloftegunda og hvernig minnka eigi slit og núning í vélarhlutum. Það er talið að 2% af vergri landsframleiðslu sé vegna framleiðslutaps vegna slits og núnings, því er ávinningurinn mikill með betri mælingum á míkró- til nanókvarðanum vegna mælinga á yfirborði vélarhluta. Nákvæmni í mælingum á yfirborði efna er mikilvæg fyrir verkfræði og iðnað þar sem treysta þarf á greiningu á yfirborðstæringu efna. Einnig var fjallað um hvernig eigi að fjarlægja geislavirkan úrgang úr endurvinnanlegum úrgangi þar sem stundum er hættulegur úrgangur flokkaður sem endurvinnanlegur og því mikilvægt að finna nýjar leiðir til að fylgjast með þessu. 

Óhætt er að segja að aðild Neytendastofu í EUROMET samstökunum nýtist vel hér á landi. Neytendastofa hefur aukinn aðgang að upplýsingum, getur tekið þátt í sameiginlegum rannsóknar- og samanburðarverkefni milli prófunarstofa aðildarríkjanna og það er samvinna við þjónustuaðila með kvörðun og lögmælifræði í Evrópu svo eitthvað sé nefnt.

 

TIL BAKA