Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu staðfest

29.11.2013

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur í máli nr. 14/2012 staðfest þá ákvörðun Neytendastofu að Byko hafi ekki brotið gegn lögum með því að nota orðin „harðparket“ og „plankaparket“ en ekki „plastparket“  í auglýsingum fyrir gólfefni úr plasti.

Neytendastofa fjallaði m.a. um það í ákvörðun sinni að leitt hafi verið í ljós að notkun orðsins „harðparket“ væri algengt hvort sem um væri að ræða viðar- eða plastparket. Þá yrði ekki annað séð en að orðið „plankaparket“ vísaði til stærðar parketfjalanna.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar er til þess vísað að notkun orðsins „harðparket“ virðist nokkuð algengt yfir hinar ýmsu tegundir gólfefna, plastparket hafi almennt mikla yfirborðshörku og því hljóti að mega fallast á með Byko að orðið „harðparket“ lýsi ágætlega eiginleikum umrædds gólfefnis. Þá verði ekki talið að orðið „harðparket“ sé til þess fallið að vekja þau hughrif hjá neytendum að um viðarparket sé að ræða. Sömu sjónarmið eigi við um heitið „plankaparket“.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA