Fara yfir á efnisvæði

Betri réttindi neytenda við kaup á pakkaferðum

29.11.2013

Í tillögu að nýrri tilskipun sem framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram er nú lagt til að auka verulega neytendavernd með því að gera kröfu um að ferðasali verði að bera ábyrgð gagnvart neytendum þegar þau setja saman eigin ferð á vefsíðu þeirra með því að panta t..d flug og hótel eða sérsníða sinn eigin ferðapakka á Netinu. Þessi breyting þýðir að mati ESB að 120 milljónir manna á EES svæðinu fá nú vernd sem gildandi reglur um alferðir, sbr. lög nr. 80/1994, hafa ekki ná til.

Neytendur panta í auknum mæli bæði flug, hótel og jafnvel bílaleigubíl frá sama svæði og pakka þannig saman sjálfir eigin ferðum. Í reglum sem gilda nú á EES svæðinu þá er ferðaseljendum skylt að leggja fram tryggingar þannig að neytendur geti fengið endurgreiðslu á greiðslum sem þeir hafa greitt ef fyrirtæki verða gjaldþrota eða óvæntar aðstæður koma upp, þannig að ávallt sé tryggt að unnt sé að flytja neytendur heim ef gjaldþrot verður. Á Íslandi hefur verið valin sú leið að þeir sem selja ferðir leggja hver um sig fram starfsábyrgðartryggingu en í t.d í Danmörku hafa verið sett lög um tryggingasjóð ferðaskrifstofa. Þegar að nýjar reglur verða samþykktar þá þarf að endurskoða núgildandi lög um alferðir sem Neytendastofa hefur eftirlit með svo og reglur um rétt neytenda til endurgreiðslu á fyrirframgreiðslum ef gjaldþrot verður og rétt þeirra til að fá flutning heim án aukakostnaðar. Ferðaþjónustuaðilar sem hingað til hafa ekki þurft að vera aðilar að tryggingakerfi mun þurfa að leggja fram tryggingar þegar að nýjar reglur taka gildi.  Á Íslandi er ekki starfræktur einn tryggingasjóður fyrir ferðaþjónustuaðila heldur leggur hver og einn aðili fram starfsábyrgðartryggingu vegna sinnar eigin starfsemi sbr. skrá  Ferðamálstofu um útgefin leyfi.

Í Noregi,  Svíþjóð og Danmörku hafa verið stofnsettir ferðatryggingasjóðir sem allar ferðaskipuleggjendur eiga aðild að. Neytendastofa telur að mikilvægt sé að endurskoða fyrirkomulag hér á landi varðandi tryggingakerfi ferðaskrifstofa enda er í nýjum reglum ESB reiknað með gagnkvæmum viðurkenningum á tryggingakerfum EES ríkja. 

Drög að nýrri tilskipun ESB má lesa hér.

TIL BAKA