Fara yfir á efnisvæði

Lög um neytendalán og fjármálalæsi

19.03.2014

Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu

Enginn kemst hjá því að sýsla með eigin fjármál. Allir þurfa að geta haft yfirsýn yfir tekjur sínar og útgjöld og getu til þess að greina án vandræða hver þeirra eigin fjárhagsgeta er. Neytendur verða oft að taka lán þegar kemur að langtímafjárfestingum t.d. kaup á eigin húsnæði. Við þær aðstæður er mikilvægt að neytendur skoði vel þá valkosti sem þeir hafa á lánamarkaði og beri saman heildarlántökukostnað sem mismunandi lánveitendur bjóða.

Ný lög um neytendalán tóku gildi 1. nóvember 2013 en lögin byggja á tilskipun ESB um neytendalán. Tilgangur laganna er að skylda lánveitendur til að leggja fram allar nauðsynlegar grunnupplýsingar áður en neytendur undirrita lánasamninga t.d. um vexti og annan kostnað sem fylgir láninu s.s. verðbætur eða önnur skyldubundin gjöld sem neytendur þurfa að greiða.

Lánveitendur færa heildarkostnað á ársgrundvelli inn í sérstaka reiknivél þar sem þessi kostnaður er reiknaður á núvirði og settur fram sem ein prósentutala svo auðvelt sé fyrir neytendur að bera saman lánatilboð sem þeir fá í hendur. Skammstöfun fyrir þessa tölu er ÁHK ( árleg hlutfallstala kostnaðar). Allir neytendur þurfa að þekkja þennan rétt og óska eftir tilboðum frá fleiri en einum lánveitanda. Lánveitendur sem auglýsa lán til neytenda verða einnig að geta um þessa tölu í auglýsingum. Því lægri sem ÁHK prósentan er því hagstæðara er lánstilboðið. Réttur neytenda til upplýsinga um ÁHK er gott dæmi um hvernig unnt er, með samræmdri löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu, að tryggja að allir neytendur fái mikilvægar grunnupplýsingar um lánssamninga án þess að þeir hafi háskólapróf í fjármálafræðum.

Neytendur fá framvegis einnig upplýsingar afhentar á stöðluðu skjali sem gerir allan samanburð hér innanlands og á öllu Evrópska efnahagssvæðinu einfaldan og skýran. Hér verður þó að leggja áherslu á að um er að ræða upplýsingar sem lagðar eru fram í upphafi en oft eru ákvæði í samningi um breytilega vexti eða breytileg gjöld. Í því sambandi eru gerðar ríkar kröfur í lögum um að tilgreina verður með skýrum hætti við hvaða aðstæður slíkar breytingar verða. Í ýmsum ákvörðunum Neytendastofu hefur komið fram að lánveitendur hafa brotið á þessum rétti neytenda. Mikilvægt er því að hvetja neytendur til að skoða slík ákvæði sérstaklega. Þegar og ef aðstæður koma upp þar sem reynir á breytingarnar þá reynir einnig á fjármálalæsi neytenda og hvernig þeir vilja bregðast við breytingunum, þ.e. að þeir kynni sér hvort hagstæðara sé að greiða áfram af samningnum þrátt fyrir breytinguna eða hvort ódýrara sé að endurfjármagna lánið þó því fylgi viðbótarkostnaðar.

Frelsi til samninga er dýrmætt en það er mikilvægt að neytendur sýni aðhald og séu virkir gagnvart samningsskilmálum sem lánveitendur setja fram og noti svigrúm sem þeir hafa til frjálsra samninga þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar um fjármál heimilanna, s.s. langtímaskuldbindingar um peningalán. Neytendastofa fagnar því að Ísland tekur nú virkan þátt í alþjóðlegri viku um fjármálalæsi og hvetur alla neytendur til þess að kynna sér reglur um neytendalán og hvernig þær stuðla að betra fjármálalæsi hér á landi.

Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu.

TIL BAKA