Fara yfir á efnisvæði

Álit EFTA dómstóls styður niðurstöðu Neytendastofu að 0% sé óheimilt

24.11.2014

EFTA dómstóllinn hefur gefið út ráðgefandi álit um að óleyfilegt sé samkvæmt tilskipunum um neytendalán að færa inn 0% verðbólgu við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK) þegar verðbólga er fyrir hendi þegar útreikningur er gerður.

Í máli nr. 8/2014 komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að slík framkvæmd sé í andstöðu við íslensk lög sem innleiða tilskipanir um neytendalán og upplýsingagjöf til neytenda. Upplýsingagjöf til neytenda við lántöku er ávallt einstaklingsbundin og því verður við úrlausn í einstökum málum að líta til upplýsinga sem veittar voru í hverju tilviki fyrir sig. Neytendastofa vill jafnframt benda á að í áliti EFTA dómstólsins kemur fram að það er á ábyrgð íslenskra dómstóla að ákveða hvaða áhrif röng upplýsingagjöf hafi gagnvart einstökum neytendum, að teknu tilliti til allra atvika málsins og með hliðsjón af íslenskum lögum um afleiðingar þess að upplýsingagjöf reynist ófullnægjandi í einstaka tilvikum. Það er því ekki í verkahring Neytendastofu sem fer með eftirlit með ákvæðum laga um neytendalán og öðrum lögum sem á sviði neytendaverndar að fjalla um einstök mál eða uppgjör þeirra.

Réttindi neytenda eru tryggð með margvíslegum lögum frá Alþingi og sýnir mál þetta að mikilvægt er að fyrirtæki á markaði í framkvæmd taki fullt tillit til laga á sviði neytendaverndar.

Ákvörðun Neytendastofu í máli nr. 8/2014 má lesa hér.

TIL BAKA