Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu staðfest

30.01.2015

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu um að smálánafyrirtækin 1909, Hraðpeningar og Múla hafi brotið gegn lögum um neytendalán með innheimtu kostnaðar fyrir flýtiafgreiðslu lánshæfismats.

Í júní s.l. tók Neytendastofa ákvarðanir gagnvart öllum smálánafyrirtækjum þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að gjald fyrir flýtiafgreiðslu teldist hluti af heildarlántökukostnaði og skyldi því taka tillit til þess við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK). Samkvæmt lögum um neytendalán má ÁHK ekki vera hærra en 50% að viðbættum stýrivöxtum en með því að gjald fyrir flýtiafgreiðslu sé innifalið í ÁHK verður hún mun hærri.

Fyrirtækin kærðu ákvarðanir til áfrýjunarnefndar neytendamála sem hefur nú staðfest ákvörðun Neytendastofu gagnvart 1909, Hraðpeningum og Múla. Úrskurður í máli Kredia og Smála liggur nú þegar fyrir þar sem ákvörðun Neytendastofu var jafnframt staðfest.

Sjá úrskurð nr. 14/2014

TIL BAKA