Fara yfir á efnisvæði

Öryggi stiga kannað

07.05.2015

Fréttamynd

Neytendastofa tók þátt í evrópsku samstarfsverkefni á síðasta ári þar sem öryggi stiga á íslenskum markaði var kannað. Á hverju ári þarf um hálf milljón manna á Evrópska efnahagssvæðinu að leita sér læknisaðstoðar vegna slysa sem verða við notkun stiga. Algengustu meiðslin eru beinbrot. Algengasta ástæða slysanna eru mannleg mistök eins og til dæmis röng notkun, stiginn reynist of stuttur fyrir verkefnið eða honum er ekki stillt upp við öruggar aðstæður.  Þá er einnig algengt að einstaklingar sem hafa slasað sig í stigum séu að halda á einhverju. Í rannsókn sem gerð var á slysunum kom fram að sammerkt með flestum tilfellum var að notandinn las ekki leiðbeiningarnar. Afar brýnt er því að neytendur muni eftir að lesa leiðbeiningar og fari eftir þeim öryggisatriðum sem þar eru nefnd. Sem dæmi má nefna að ekki á að standa í efstu þremur þrepunum. Fastlega má gera ráð fyrir því að hlutfall slysa og afleiðingar þeirra séu svipaðar á Íslandi en ekki hefur verið gerð sérstök úttekt á slíkum slysum.

Starfsmenn Neytendastofu könnuðu íslenska markaðinn með því að skoða um 60 stiga og voru 10 þeirra skoðaðir nánar og þar af fjórir sendir til Hollands til prófunar. Í ljós kom að merkingar og nauðsynlegar upplýsingar vantaði við sölu stiganna.

Mikilvægt er að hafa í huga að mikill munur er á stigum sem ætlaðir eru til nota í atvinnuskyni og þeirra sem ætlaðir eru til heimilisnota. Stigar sem seldir eru til notkunar í atvinnuskyni þurfa að vera nægilega sterkbyggðir til þess að þola mikla og ítrekaða notkun. Sem dæmi um öryggisatriði sem hafa þarf í huga er að stigar sem hafa liði hafa ákveðin líftíma, því liðirnir slitna eftir ákveðinn fjölda skipta sem stiginn er opnaður og honum lokað aftur. Stigar sem framleiddir eru til einkanota eru ekki ætlaðir til jafn mikilla nota eins og þeir sem framleiddir eru til nota í atvinnuskyni. 

Stigarnir sem sendir voru frá Íslandi til prófunar reyndust allir hafa einhverja vankanta en þó misalvarlega. Á alla stigana vantaði merkingar. Tveir stiganna reyndust eingöngu til heimilisnota en ekki til notkunar í atvinnuskyni. Þá reyndist einn stigi varasamur þar sem gúmmífætur gátu losnað af eða færst til. Sú gerð stiga hefur nú verið tekin úr sölu. Neytendastofa hvetur neytendur til fara varlega við notkun stiga í sumarverkunum. Notum stigann rétt og tökum ekki óþarfa áhættu. Færum stigann frekar en að teygja okkur, pössum undirlagið og gætum að því að hafa réttan halla á stiganum svo hann renni ekki niður. Á mörgum stigum eru hallamælar, sem segja til um rétta stöðu. Þá þarf að fylgjast með því hvort gúmmí á fótum stigans sé nægilega fast.TIL BAKA