Fara yfir á efnisvæði

Leiðbeiningar Neytendastofu um auðþekkjanlegar auglýsingar

10.06.2015

Mega auglýsingar vera í formi „frétta“? Má borga fyrir góða umfjöllun um sig í dagblaði eða tímariti eða jafnvel fyrir slæma umfjöllun um keppinaut? Þurfa bloggarar að segja frá því þegar þeir skrifa um vörur eða þjónustu sem þeir hafa fengið gefins?

Neytendur eiga rétt á því að vita hvenær verið er að reyna að selja þeim vöru eða þjónustu. Neytendastofa hefur nú gefið út leiðbeiningar til fjölmiðla og bloggara um efnið.

Margir lesendur átta sig ekki á að bloggarar fá gefins vörur eða fá greitt fyrir að fjalla um tilteknar vörur eða þjónustu. Þá getur oft verið erfitt fyrir lesendur dagblaða og tímarita að átta sig á því hvað er auglýsing og hvað er umfjöllun.

Duldar auglýsingar eru bannaðar hér á landi og í Evrópu. Markmiðið með því að banna slíka viðskiptahætti er fyrst og fremst að vernda neytendur. Ef neytendur átta sig ekki á þeim skilaboðum sem komið er á framfæri með markaðssetningu þá eru þeir síður í aðstöðu til þess að taka gagnrýna og upplýsta ákvörðun um viðskipti.

Málið snýst um traust og heiðarleika. Neytandinn þarf að geta treyst því að um raunverulegar skoðanir og lýsingar á vörunni og þjónustunni sé að ræða og að þær séu ekki keyptar. Það er óheiðarlegt að dylja tilgang skilaboðanna þegar um markaðssetningu er að ræða. Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða áhrifagjarna neytendur eins og börn og unglinga.

Markmið Neytendastofu með leiðbeiningum er að sýna fjölmiðlum og bloggurum að það er afar auðvelt að halda sig réttu megin við lögin.

Leiðbeiningarnar má nálgast hér.

TIL BAKA