Fara yfir á efnisvæði

Ábyrgðir þegar raftæki eru keypt á netinu

12.06.2015

Neytendastofa tók síðast liðið haust þátt í samræmdri skoðun neytendayfirvalda á Evrópska efnahagssvæðinu á samtals 437 vefsíðum sem selja raftæki (t.d. farsíma, tölvur, myndavélar og sjónvörp). Þar af voru 12 íslenskar vefsíður skoðaðar af Neytendastofu sem valdar voru með hliðsjón af stærð og vinsældum. 235 vefsíður eða 54% reyndust ekki uppfylla lagakröfur um upplýsingagjöf til neytenda varðandi lögbundnar og samningsbundnar ábyrgðir. Allar íslensku vefsíðurnar uppfylltu skilyrði íslenskra laga en taka verður fram að ekki er búið að breyta lögum til samræmis við tilskipun um réttindi neytenda. Tilskipunin gerir strangari kröfur til upplýsingagjafar um ábyrgðir. Tilskipunin verður innleidd og hvetur Neytendastofa því íslensk fyrirtæki til að láta þær upplýsingar sem framan greinir koma fram á heimasíðum sínum. Í kjölfarið höfðu neytendayfirvöld í hverju ríki fyrir sig samband við umrædd fyrirtæki til þess að fá þau til þess að laga vefsíður sínar. Til dagsins í dag hafa 155 vefsíður af 235 verið lagaðar en fyrirhugaðar eru frekari aðgerðir gagnvart fyrirtækjunum sem ekki hafa lagfært upplýsingar á sínum síðum.

Helstu annmarkar sem fundust á vefsíðunum voru eftirtaldir:

• Á 174 vefsíðum vantaði upplýsingar um að samkvæmt lögum beri seljandi ábyrgð á gölluðum vörum.

• 87 vefsíður settu fram villandi upplýsingar um samningsbundna ábyrgð á raftækjum, að því er varðaði lengd ábyrgðartíma, til hvaða landa ábyrgðin næði og nafn og heimilisfang ábyrgðaraðila.

• Á 76 vefsíðum var hvergi tekið fram í ábyrgðarskírteini að neytendur hefðu rétt samkvæmt lögbundinni ábyrgð seljanda og að auka samningsbundin ábyrgð hefði ekki áhrif á rétt neytenda.

• Á 52 vefsíðum var að finna villandi upplýsingar um nafn, heimilisfang eða veffang
fyrirtækjanna.

Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar og sameiginlegar kannanir Evrópusambandsins má nálgast hér og hér:

http://ec.europa.eu/consumers/enforcement/sweeps/guarantees/index_en.htm

http://ec.europa.eu/consumers/enforcement/sweeps/index_en.htm

TIL BAKA