Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa kannar blöðrur

16.06.2015

Fréttamynd

Neytendastofa fór núna á dögunum og kannaði merkingar á blöðrum. Á pakkningunni þarf að koma fram að blöðrur séu ekki fyrir átta ára og yngri til að blása upp. Farið var í Hagkaup, Nettó, Krónuna, Bónus, Rúmfatalagerinn, Partýbúðina, A4 og Megastore. Alls voru 350 blöðrur skoðaðar og voru allar merkingar á þeim í lagi.

Blöðrur eiga sök á fleiri dauðsföllum af völdum köfnunar heldur en nokkuð annað leikfang, slysin hafa gerst þegar börn hafa verið að blása blöðruna upp sjálf eða sogið hana þegar hún er ekki uppblásin og í kjölfarið hrokkið ofan í þau. Þegar blaðra festist í öndunarvegi þá aðlagar hún sig alveg að hálsinum á barninu og öndunarvegurinn lokast. Ef blaðra springur þarf að gæta að því að henda öllum hlutum hennar svo að barnið komist ekki í það.

Nú fer að koma að 17. júní og mikið af ungum börnum að skemmta sér og gleðjast með blöðru í hönd. Svo þessi stund verði sem ánægjulegust er mikilvægt að hafa öryggi barna í huga. Á blöðrur eru gjarnan sett gjafabönd sem stundum eru mjög sterk og næstum óslítanleg, jafnvel fyrir fullorðna. Blöðrurnar eru síðan afhentar börnum, oft eru þær bundnar við barnavagna eða úlnliði barna. Þetta getur skapað hættu fyrir ung börn, sér í lagi ef þau eru ekki undir stöðugu eftirliti fullorðinna.Forráðamönnum barna er bent á að blöðrur ætti alls ekki binda við vöggu, rúm eða handleggi barna eða þar sem börn eru án stöðugs eftirlits.

Pössum upp á börnin okkar og njótum þjóðhátíðardagsins!

Stofnunin hvetur neytendur til að vera á verði og koma ábendingum um gallaðar eða hættulegar vörur til Neytendastofu á netfangið edda@neytendastofa.is eða postur@neytendastofa.is

TIL BAKA