Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingar í byggingavöruverslunum og timbursölum á höfuðborgarsvæðinu

20.07.2015

Neytendastofa kannaði verðmerkingar hjá byggingavöruverslunum og timbursölum dagana 30. júní - 3. júlí sl. Farið var í níu verslanir og fimm timbursölur.

Þær níu byggingavöruverslunum sem skoðaðar voru tilheyrðu Bauhaus, Byko, BYMOS, Fossberg, Húsasmiðjunni og Múrbúðinni. Kannaðar voru verðmerkingar almennt auk þess sem teknar voru 25 vörur af handahófi þar sem borið var saman hillu- og kassaverð. Í Byko Breidd og á Fiskislóð voru gerðar athugasemdir við óverðmerktar vörur í þó nokkru magni. Í BYMOS í Mosfellsbæ var einnig mikið um óverðmerkta vöru. Við könnun hjá Fossbergi kom í ljós 7 ósamræmi á hillu- og kassaverði, fimm neytanda í hag en tvö neytanda í óhag þar sem mest munaði 572 kr., einnig voru athugasemdir gerðar við óverðmerktar vörur í hillum. Í Húsasmiðjunni Dalshrauni og Skútuvogi voru athugasemdir gerðar við óverðmerktar vörur í hillum en í Húsasmiðjunni í Grafarholti voru athugasemdir við óverðmerktar vörur og átta athugasemdir við ósamræmi milli hillu- og kassaverðs, þar sem þær voru allar neytenda í óhag og mest munaði 400 kr.

Timbursölurnar fimm sem Neytendastofa gerði könnun í tilheyrðu Bauhaus, Byko og Húsasmiðjunni. Engar athugasemdir voru gerðar við timbursölu Bauhaus, ástand timbursölu Byko á Fiskislóð var viðunandi þar sem gerðar voru 2 athugasemdir sem lagaðar voru strax. Í timbursölu Byko Breidd var sýnishornaveggur óverðmerktur ásamt nokkrum vörum í hillum verslunar. Í timbursölum Húsasmiðjunnar var ástand þannig að gerðar voru athugasemdir við óverðmerkt sýnishorn og hvergi kom fram verð á timbri í timbursölu í Dalshrauni og í Grafarholti vantaði verðmerkingar á sýnishorn og ekki var án vandkvæða mögulegt að nálgast verð á vörum í timbursölu.

Neytendastofa mun halda áfram verðmerkinga- og verðkannanaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri verslunum. Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni neytendastofa.is.

TIL BAKA