Fara yfir á efnisvæði

Hundasnyrtistofur þurfa að bæta verðmerkingar

18.11.2015

FréttamyndNeytendastofa kannaði í kjölfar ábendinga verðmerkingar í gæludýraverslunum, hundasnyrtistofum og á vefsíðum þeirra. Í byrjun nóvember var farið í 10 gæludýraverslanir og fjórar hundasnyrtistofur á höfuðborgarsvæðinu. Athugað var hvort vörur í verslununum væru verðmerktar og hvort verðskrá yfir þjónustu hundasnyrtistofa væri sýnileg. Verðskrá yfir alla þjónustu á að vera birt með áberandi hætti þar sem þjónustan er veitt.

Þegar vefsíður fyrirtækjanna voru skoðaðar var athugað hvort allar upplýsingar um fyrirtækið kæmu fram svo sem heimilisfang, kennitala, netfang og vsk númer. Á vefsíðum er jafnframt skylt að gefa upp endanlegt verð.

Gerðar voru athugasemdir vegna verðmerkinga hjá sex fyrirtækjum. Í verslunum Dýralæknamiðstöðvarinnar Grafarholti og Gæludýr.is í Smáratorgi voru verðmerkingar ekki í lagi. Verðskrá vantaði yfir alla þjónustu hjá hundasnyrtistofunum Kátir hvuttar, Molakot, Dekurdýr, Dýrin.is ( Dýralæknamiðstöð Grafarholts )og Hundavinir.is auk þess vantaði upplýsingar um fyrirtækin á vefsíðum þeirra.

Verðmerkingaeftirlit Neytendastofu er að miklu leyti byggt á ábendingum frá neytendum. Stofnunin hvetur neytendur því til að senda ábendingar um verslanir sem ekki fara að verðmerkingareglum. Það er hægt að gera með því að skrá sig inn á Mínar síður á vefsíðu www.neytendastofa.is

TIL BAKA