Fara yfir á efnisvæði

Sameiginlegt átak í öryggi hlaupahjóla

05.02.2016

FréttamyndNeytendastofa hefur í samstarfi við eftirlitsstofnanir í Evrópu farið í átak vegna öryggis hlaupahjóla. Skoðuð voru yfir 5000 hlaupahjól, úr þeim voru valin um 700 hjól sem skoðuð voru nánar og af þeim tekin eintök sem send voru til prófunar í Frakklandi. Yfir 94% af hlaupahjólunum sem send voru til prófunar reyndust ekki í lagi.

Það eru að minnsta kosti 100 ár síðan að fyrsta hlaupahjólið var búið til. Það er þó ekki fyrr en eftir 1990, þegar farið var að framleiða hlaupahjól sem hægt var að leggja saman, sem þau fóru að verða vinsæl. Fyrir 16 árum var farið að framleiða hlaupahjól úr áli þau voru létt, ryðguðu ekki og auðvelt að leggja saman og er því orðið auðvelt að taka þau með á milli staða og nota þegar á þarf.

Hlaupahjól eru tvenns konar, annað hvort eru þau leikfang og merkt staðlinum EN 71 og CE merkt eða þau teljast vera sporthjól og merkt staðlinum EN 14619. Það er bannað að framleiða hjól og nota báða staðla.

Munurinn á milli þess að kaupa hlaupahjól sem leikfang eða sporthjól virðist ekki vera mikill þegar horft er á hjólin. Meginmunurinn felst í því að hlaupahjól sem er CE merkt er leikfang fyrir börn undir 14 ára en sporthlaupahjól er ætlað fyrir íþróttir (leika listir) eða til að ferðast á milli staða. Gott er að hafa þetta í huga áður en ákveðið er að kaupa hjól. Leikfangahlaupahjól eru fyrir börn undir 50 kg og það eru einnig til hjól fyrir enn yngri börn eða fyrir undir 20 kg sem er ætlað fyrir 3 ára og yngri. Það eru meiri kröfur gerðar til íþróttahlaupahjóla, þar sem ætlað er að álagið á þeim hjólum sé mun meira heldur en á leikföngum. Aðrar kröfur eru gerðar til leikfangahjóla en íþróttahjóla svo sem varðandi efnainnihald t.d. í höldum og hvort blý séu í málningunni.

Í átakinu voru 49 módel af leikfangahlaupahjólum send til prófunar en aðeins tvö stóðust allar kröfur. Algengast (50%) var að það væri of mikið bil á milli hreyfanlegra hluta á hjólinu eða að göt væru of stór sem gætu því valdið hættu á að börn klemmdu sig. Næstalgengast var að hætta væri á að stöngin með stýrinu myndi brotna eða svigna. Það voru einnig prófuð hjól sem voru sérstaklega fyrir börn undir þriggja ára aldri, með 3 eða 4 hjólum sem eiga að vera stöðugri en hjólin fyrir eldri börn. Flest þessara hjóla féllu á stöðugleikaprófinu. Aðeins tvö sporthlaupahjólin af 20 stóðust allar kröfur. Sama athugasemd og var algengust varðandi leikfangahjólin átti einnig við um 70% af sporthjólunum, þ.e. bilið á milli hluta og stærð á gati gat valdið hættu á að notendur klemmdu sig. Mörg hlaupahjól voru með fleiri en eitt atriði sem var ekki í lagi. Neytendastofa sendi nokkrar tegundir af hlaupahjólum til prófunar, af þeim hjólum var engin athugasemd gerð við hlaupahjól sem selt var í Nettó. Aðrar tegundir fengu athugasemdir, en ekkert hlaupahjól var með það mikinn galla að það þurfti að innkalla það.

Hægt er að sjá þau hlaupahjól sem tilkynnt voru í RAPEX kerfið hér.  

Neytendastofa mun halda samstarfinu áfram með systurstofnunum í Evrópu. Við munum í ár einblína á öryggi leikfanga og markmiðið er að öll leikföng í Evrópu séu örugg börnunum okkar.

TIL BAKA