Fara yfir á efnisvæði

Ársskýrsla Rapex 2015

17.05.2016

Rapex er tilkynningarkerfi meðal landa innan Evrópska efnahagssvæðisins og tryggir með skjótum og öruggum hætti að stjórnvöld geti gripið til viðeigandi aðgerða án tafar ef að vara uppfyllir ekki þær öryggiskröfur sem gerðar eru til markaðssetningar hennar. Frá árinu 2004 hafa yfir 20 þúsund tilkynningar borist Rapex og sýnir það hversu öflugt og mikilvægt kerfið er.

Í apríl sl. var ársskýrsla Rapex birt fyrir árið 2015. Á árinu 2015 bárust alls 2123 tilkynningar um hættulegar vörur. Flestar tilkynningarnar bárust vegna leikfanga (27%), fatnaðar og fylgihluta (17%) og bifreiða (10%). Algengustu hætturnar fyrir neytendur voru efnahætta (25%), líkamstjón (22%) og köfnunarhætta (17%). Flestar vörurnar komu frá löndum utan ESB, aðallega frá Kína en á síðasta ári voru 1262 tilkynningar eða 62% vegna hættulegra vara frá Kína.
Hlutverk Neytendastofu er að kanna hvort að þær vörur sem falla undir eftirlit stofnunarinnar finnist hér á markaði. Þegar hættuleg vara finnst á markaði er haft samband við hlutaðeigandi söluaðila eða framleiðanda sem í kjölfarið hefur samband við viðskiptavini sína og tilkynnir þeim um að varan hafi verið innkölluð. Á árinu 2015 fundust alls 36 vörur hér á landi sem tilkynntar voru í Rapex. Flestar þessara tilkynninga vörðuðu vélknúin ökutæki og barnavörur.

Ársskýrslu Rapex má í heild sinni finna hér.

Neytendastofa vill beina þeim tilmælum til framleiðenda að tryggja öryggi vara sem að þeir hyggjast setja á markað áður en að framleiðsla þeirra hefst með því að kynna sér þær reglur sem gilda um framleiðslu vörunnar. Þá hvetur stofnunin neytendur til þess að vera á verði og koma ábendingum um gallaðar eða hættulegar vörur til Neytendastofu á netfangið edda@neytendastofa.is eða postur@neytendastofa.is

TIL BAKA