Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa sektar fyrir verðmerkingar

27.05.2016

Neytendastofa hefur lagt stjórnvaldssekt á níu verslanir fyrir að fara ekki að fyrirmælum stofnunarinnar um að bæta verðmerkingar hjá sér. Um er að ræða verslanir sem staðsett eru í Mjódd, Glæsibæ, Firðinum í Hafnarfirði, Holtagörðum, Smáratorgi, Spönginni, Hverafold, Korputorgi, Eiðistorgi, Garðatorgi, Grímsbæ, Hamraborg, Austurveri og Suðurveri. Í heildina var farið í 68 verslanir og þjónustufyrirtæki sem bjóða neytendum ýmsar vörur og þjónustu.

Í skoðununum var farið yfir hvort verðmerkingar annars vegar inni í verslununum og hins vegar í sýningarglugga væru í lagi. Farið var í 68 verslanir en eftirfylgni var gerð hjá 28 þeirra. Um 40% var ekki með verðmerkingar í lagi. Flestar verslanir höfðu bætt úr verðmerkingum sínum en þar sem enn voru gerðar athugasemdir við verðmerkingar í níu þeirra voru þær nú sektaðar.

Þær verslanir sem lögð var sekt á eru: Toys R us Smáratorgi; Breiðholtsblóm, Gull-úrið og Frú Sigurlaug sem eru í Mjódd og Sportlíf, Dion, Snyrtivöruverslunin Glæsibæ, Ólavía og Oliver og Dalía sem eru í Glæsibæ. Sektarfjárhæðir eru á bilinu 50.000-100.000 kr.

Ákvarðanirnar má finna hér

TIL BAKA