Fara yfir á efnisvæði

Bætt umhverfi netviðskipta á EES svæðinu.

21.06.2016

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti á dögunum fyrirhugaðar aðgerðir til þess að auðvelda neytendum netviðskipti á EES svæðinu. Aðgerðirnar byggja á stefnu framkvæmdastjórnarinnar um samtengdan stafrænan innri markað EES svæðisins (e. Digital Single Market) og eru í meginatriðum þríþættar.

Í fyrsta lagi verður ráðist í aðgerðir til að taka á lokun höfundarréttarvarins efnis eftir búsetu (e. geoblocking) og mismunun í netverslunum eftir búsetu. Neytendur sem versla á netinu standa oft frammi fyrir því að vera beint inn á vefsíður með takmarkaðra vöruúrvali eða að ekki er tekið við erlendum greiðslukortum.

Í öðru lagi munu aðgerðirnar einnig beinast að því að gera flutning og afhendingu á pökkum skilvirkari og hagkvæmari og að auka gagnsæi verðs á flutningsþjónustu. Neytendur eiga oft erfitt með að skila vöru eða átta sig fyrir fram á verði flutningsþjónustunnar þegar verslað er á netinu. Aukið gagnsæi mun jafnframt stuðla að virkari samkeppni neytendum til góða.

Í þriðja lagi munu vera kynntar til sögunnar aðgerðir til þess að styrkja verulega núverandi samstarf eftirlitsstofnana og eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum á netinu. Eftirlitsstofnunum á EES svæðinu mun meðal annars vera auðveldað að taka niður vefsíður sem stunda netsvindl og aðrar blekkjandi viðskiptahætti og vera veittar heimildir til þess að krefja lénaskrár um upplýsingar um hverjir standi að baki vefsíðum sem stundi óréttmæta viðskiptahætti. Þá hefur framkvæmdastjórnin jafnframt kynnt nýjar leiðbeiningar um réttmæta viðskiptahætti, meðal annars í netviðskiptum.

Upplýsingar um aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins má nálgast hér.

TIL BAKA