Fara yfir á efnisvæði

Skorkort neytendamála 2016: staðan á mörkum batnar

12.09.2016

Annað hvert ár er gerð könnun á neytendamörkuðum ESB ríkja og á Íslandi og Noregi og athugað hvernig staðan á þeim er. Kannað er traust neytenda til fyrirtækja, vandamál og kvartanir. Einnig er athugað hvernig sé fyrir neytendur að bera saman vöru og þjónustu og ánægju neytenda með fyrirtæki. Evrópusambandið hefur birt skorkort neytendamála fyrir árið 2016 (Consumer Markets Scoreboard) þar sem fram koma niðurstöður könnunar á 42 vöru- og þjónustumörkuðum í Evrópu.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að almenn frammistaða markaðanna hefur batnað frá síðasta skorkorti árið 2014. Allt frá árinu 2010 hefur staðan batnað og gerist það nú hraðar en áður og þá sérstaklega á fjármálamarkaði. Þeir þrír markaðir fyrir vöru sem standa sig best eru markaður fyrir bækur, tímarit og dagblöð, markaður fyrir afþreyingarvörur (þ.e. leikföng og leikir) og markaður fyrir stór heimilistæki (s.s. ísskápar). Hvað þjónustumarkaði varðar eru efsti þrír markaðirnir allir tengdir tómstundum, þ.e. allt frá gistingu til menningar og skemmtunar eða líkamsræktar.

Þegar neytendur upplifa sig öruggari í viðskiptum mælast markaðir betur. Sem dæmi má nefna að vantraust neytenda til fjármálaþjónustu varð tilefni til tilskipunar um neytendalán. Núna, þegar sú gerð hefur tekið gildi, hefur traust til markaðarins aukist. Neytendur hafa lýst vandamálum í samskiptum við fjarskiptafyrirtæki. Mun Evrópusambandið leggja fram tillögu um umbætur á þeim markaði til þess að taka á þessum vandamálum. Nýleg tillaga um rafræna samninga (Digital contracts) hefur það markmið að auka traust neytenda í rafrænum viðskiptum yfir landamæri.

Lesa má meira um skorkortið á vef Evrópusambandsins hér: http://ec.europa.eu/consumers/consumer_evidence/consumer_scoreboards/12_edition/index_en.htm

10 markaðir með vöru hækka milli ára hér á landi og þrír þeirra standa í stað. Mesta hækkunin milli ára er á markaði fyrir stór heimilistæki, sem er jafnframt sá markaður með vöru sem neytendur gefa hæstu einkunn á Íslandi. Næstir á eftir koma markaðir með upplýsingatæknivörur og óáfenga drykki. Þeir þrír markaðir með vöru sem neytendur gerðu mestar athugasemdir við eru notaðir bílar, kjöt og kjötvörur auk ávaxta og grænmetis. Þess má geta að markaður fyrir ávexti og grænmeti skorar 10,3 stigum undir Evrópumeðaltalinu sem er versta frammistaða allra markaða hér á landi.

Af 27 þjónustumörkuðum lækkar einn milli ára, tveir standa í stað en frammistaða annarra hækkar. Mesta hækkun milli ára er á markaði með fasteignalán en þrátt fyrir þessa miklu hækkun sýnir könnunin sá markaður kom verst út. Sex efstu þjónustumarkaðirnir snúa allir að ferða- og afþreyingarþjónustu, þ.e. gisting, íþróttaviðburðir, menning og skemmtanir, pakkaferðir, bílaleigur og flugþjónusta. Auk fasteignalána eru þeir tveir þjónustumarkaðir sem fæst stig fengu fasteignaþjónusta og bankareikningar.
Þess má geta að á Íslandi eru kannaðir færri þjónustumarkaðir þar sem ekki eru kannaðir markaðir með afhendingu á gasi og lestarsamgöngur.

Skorkortið má skoða í heild sinni hér þar sem m.a. er hægt að skoða sérstaklega niðurstöður fyrir Ísland: http://ec.europa.eu/consumers/consumer_evidence/consumer_scoreboards/12_edition/docs/consumer_markets_scoreboard_2016_en.pdf

TIL BAKA