Fara yfir á efnisvæði

Símasala DV á blaðaáskrift

11.10.2016

Í kjölfar ábendinga og kvartana frá neytendum tók Neytendastofa til meðferðar mál vegna símasölu DV á blaðaáskriftum. Neytendur kvörtuðu yfir því að þeim hafi verið boðin fríáskrift að DV en ekki hafi komið fram nauðsynlegar upplýsingar um að þeir færu sjálfkrafa í þriggja mánaða áskrift að frítímabili loknu. Þá hafi neytendum reynst erfitt að segja samningi upp.

Neytendastofa sendi DV fyrirspurnir vegna málsins. Bent var á að fyrirtæki í símasölu verða í samtalinu að veita fullnægjandi upplýsingar um tilboðið, m.a. varðandi uppsagnarfrest og binditíma, auk þess að senda þær skriflega að sölu lokinni. DV brást við fyrirspurnum Neytendastofu með því leggja til breytingar á verklagi fyrirtækisins í símasölu til þess að farið væri að kröfum laga um neytendasamninga.

Neytendastofa taldi breytt verklag DV vera til bóta en þó ekki fullnægjandi. Auk þess bárust stofnuninni ennþá ábendingar sem sýndu að breytingarnar höfðu ekki allar verið gerðar. Því taldi Neytendastofu nauðsynlegt að beina fyrirmælum til DV um að greina ávallt frá skilyrðum, tímamörkum og tilhögun réttar neytenda til að falla frá samningi samkvæmt ákvæðum laga um neytendasamninga áður en gengið er frá samningi við neytendur í fjarsölu.

Neytendastofa bendir á að í símasölu er mjög mikilvægt að neytendur fái allar lögboðnar upplýsingar, þ.m.t. að þeim sé greint frá því að þeir hafi fjórtán daga frest til þess að falla frá slíkum samningum.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA