Fara yfir á efnisvæði

Auðkennið Fasteignasalan Grafarvogi

14.10.2016

Neytendastofu barst kvörtun frá Fasteignamiðlun Grafarvogs yfir notkun Fasteignasölunnar Grafarvogi á heiti sínu. Kvörtunin snéri að því að með notkuninni væri hætta á að neytendur rugluðust á fyrirtækjunum og teldu sig vera að leita til Fasteignamiðlunar Grafarvogs en hefðu í raun samband við Fasteignasöluna Grafarvogi.

Í ákvörðun Neytendastofu er farið yfir það að orðin fasteignasala og fasteignamiðlun séu almenn og afar lýsandi fyrir starfsemi beggja fyrirtækjanna. Hið sama eigi við um seinni hluta heitisins, Grafarvogs. Meginreglan sé sú að auðkenni verði að hafa sérkenni til þess að njóta verndar og öðrum verði þannig bönnuð notkun þeirra. Þrátt fyrir að sú meginregla sé ekki fortakslaus og víkja megi frá skilyrði um sérkenni eftir atvikum hverju sinni, taldi Neytendastofu eins og málum væri háttað hér að ekki hafi komið fram nægilega veigamiklar ástæður til þess.

Þá leit Neytendastofa til þess að myndmerki félaganna væru gerólík að leturgerð og lit og að lén þeirra væru afar ólík.

Að teknu tilliti til alls taldi Neytendastofa Fasteignamiðlun Grafarvogs ekki geta notið einkaréttar á orðasambandi sem vísi til sölu fasteigna í Grafarvogi. Fasteignasölu Grafarvogs yrði því ekki bannað að nota auðkenni sitt.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA