Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa skoðar hraða nettenginga til neytenda

10.11.2016

Neytendastofu hafa borist mörg erindi frá neytendum varðandi hraða nettenginga og auglýsingar fjarskiptafyrirtækja á netþjónustu sem þau eru að bjóða neytendum. Af þessari ástæðu hefur Neytendastofa sent Póst- og fjarskiptastofnun beiðni um að PFS upplýsi stofnunina um hvort og hvernig fyrirtæki á fjarskiptamarkaði geti veitt öllum neytendum þann hraða á Interneti eða breiðbandstengingum sem auglýstur er. Neytendastofa telur að ástæða sé til að kanna hvort nauðsynlegt sé að setja nánari viðmið og reglur varðandi það með hvaða hætti fyrirtækjum á fjarskiptamarkaði sé rétt að haga auglýsingum og kynningum á slíkri þjónustu. Kvartanir hafa borist m.a um að neytendur telja að fjarskiptafyrirtæki geti ekki undir öllum kringumstæðum uppfyllt gefin loforð um hraða tenginga sem auglýstur er. Systurstofnun Neytendastofu í Danmörku (Forbrugerombudsmand) hefur sett fram slík viðmið og með því móti er stuðlað að auknu gagnsæi og meiri neytendavernd.

Í þeim viðmiðum kemur m.a. fram að óheimilt sé að auglýsa ákveðinn hraða nema að unnt sé að tryggja neytendum auglýstan hraða. Hins vegar ef fyrirtæki geta ekki tryggt auglýstan hraða þá er þeim heimilt að auglýsa ákveðinn hraða með orðunum „allt að“ svo framarlega sem þau geti almennt tryggt 80% viðskiptavina sinna þann hraða á milli kl. 07-01.00 daglega.


TIL BAKA