Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa vigtar vörur

05.12.2016

FréttamyndNeytendastofa fer reglulega og skoðar forpakkaðar vörur í verslunum eða hjá pökkunaraðilum. Skoðað er hvort að þyngd vörunar sé í samræmi við uppgefna þyngd á umbúðum. Unnið er samkvæmt ákveðnu verklagi þar sem skoðuð er þyngd hverrar vöru og eins meðalþyngd úrtaksins.

Í síðustu skoðun Neytendastofu á forpökkuðum vörum voru skoðaðar 19 vörutegundir og reyndust tvær ekki standast viðmiðunarmörk. Skoðaðar voru eftirfarandi vörur: forpökkuð kjötsúpa, kjötfass, þrjár tegundir af ostum, rjómasúkkulaði, kjúklingaréttur, fjórar tegundir af skyri, sýrður rjómi frá tveimur framleiðendum, tómatar frá fjórum framleiðendum og tvær tegundir af jógúrt. Framleiðendur á þessum vörum eru: Hollt og gott, Krónan, Kú-mjólkurbúið, MS, Ostahúsið, Nói Síríus, 1944, Sölufélag garðyrkjumanna, Arna og Mjólka.
Þær tvær vörutegundir sem komu þannig út úr úrtakinu að niðurstöður þóttu gefa til kynna að vörurnar væru ekki að standast viðmið, eru það Íslenskir kirsuberjatómatar frá Birkiflöt og óhrært skyr 500 g. frá Örnu ehf.
Í könnuninni kom einnig fram að þrjár vörur voru með allar pakkningar í yfir uppgefinni þyngd., um var að ræða KEA vanillu skyr 500g og Skyr.is hreint 500g frá MS og frá Örnu ehf. hrein Grísk jógúrt 200g og Grísk haustjógúrt 230 g en í þeim pakkningum voru 27 af 30 yfir uppgefinni þyngd og meðalþyngd mældist með tæplega 10% yfirþyngd.

Samkvæmt reglum um þyngd á forpökkuðum vörum mega pökkunaraðilar hafa innihald þyngra en uppgefið er þannig að neytendur hljóti góðs af en þeir mega ekki hlunnfara neytendur.

Forpakkaðar vörur eru ekki vigtaðar fyrir framan neytendur og þeir þurfa að treysta á að uppgefin þyngd sé rétt. Ábyrgð á vigt vöru er hjá framleiðendum en þeim ber að tryggja að varan sé vegin á löggiltri vog og raunverulegt magn sé í samræmi við merkingar á umbúðum.

Ef að of margar pakkningar eða meðaltalsþyngd er undir viðmiðunarmörkum er haft samband við framleiðanda og farið fram á lagfæringu á vigtun vörunnar og því síðan fylgt eftir með skoðun.

TIL BAKA