Fara yfir á efnisvæði

Flugeldasalar mega ekki blekkja neytendur

16.12.2016

Á síðustu árum hafa Neytendastofu borist nokkur fjöldi ábendinga vegna villandi markaðssetningar á skoteldum. Nokkuð hefur borið á því að skoteldar séu boðnir á afsláttar- og útsöluverði þrátt fyrir að hafa ekki verið seldir á tilgreindu venjulegu verði eða að þeir séu boðnir á kynningarverði sem vari lengur en venjulega verðið.

Neytendastofa vekur athygli á að sölutímabil skotelda er frá 28. desember til 6. janúar. Undanfarin ár hefur tíðkast að skoteldar séu seldir fyrr í desember á netinu en séu ekki afhentir neytendum fyrr en á leyfðu sölutímabilinu.

Sölutímabilið fyrir skotelda er afar stutt og því er svigrúm flugeldasala til þess að nota markaðssetningaraðferðir á borð við afslátt frá venjulegu verði eða kynningartilboð þrengra en ella. Örar verðbreytingar með auglýsingum um tilboð eða afslætti á mjög stuttu sölutímabili geta verið til þess fallnar að vera villandi.

Um síðustu áramót gerði Neytendastofa athugasemdir við auglýsingar flugeldasala vegna tilboða og afsláttar. Neytendastofa lauk skoðun sinni með ákvörðunum gagnvart sex af flugeldasölum þar sem þeim var ýmist leiðbeint eða villandi markaðssetning bönnuð.

Neytendastofa mun fylgjast með auglýsingum flugeldasala á þessu sölutímabili til þess að tryggja eðlilega viðskiptahætti gagnvart neytendum.

TIL BAKA