Fara yfir á efnisvæði

Neytendur greiði ekki fyrir óumbeðnar vörur

31.01.2017

Neytendastofu hafa borist upplýsingar um að netverslunin Luxstyle Aps og Lux Internationla Sales Aps hafi sent neytendum óumbeðið vörur sem þeir hafa ekki pantað og krafist greiðslu fyrir. Sameiginleg eftirlitsnefnd neytendastofnana í EES - ríkjum (CPC-nefndin) fékk kvartanir frá fjölmörgum ríkjum. Fyrirtækin hafi sent neytendum vörur eftir að þeir einfaldlega höfðu skráð nafn sitt og heimilisfang á forsíðu vefverslunarinnar en höfðu hvorki pantað vöruna né gefið upp greiðslukortaupplýsingar.

Netverslunum ber skylda til að hafa pöntunarferlið alveg skýrt, veita upplýsingar sem lög kveða á um og fylgja reglum sem kveða á um hvernig að samningur um kaup er gerður í netverslun.

Neytendastofa vill benda neytendum á ef þeir fá senda vöru sem þeir telja sig ekki hafa pantað þá sendi þeir fyrirtækinu þegar í stað tölvupóst og bendi á að þeir hafi ekki gert samning um kaup á vörunni. Í þeim tilvikum að ekki sé um að ræða mistök þá ber neytendum ekki skylda til að endursenda vöruna á sinn kostnað.

Í 9. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu er fyrirtækjum bannað að blekkja neytendur, nota villandi viðskiptahætti eða leyna fyrir neytendum upplýsingum sem skipta máli og eru til þess fallnar að hafa áhrif á viðskipti neytenda. Danska neytendastofan hefur kært framangreind fyrirtæki til lögreglu og nánari upplýsingar um málið má finna sjá hér.
http://www.forbrugerombudsmanden.dk/Nyheder-fra-FO/Pressemeddelelser/2017/To-danske-virksomheder-politianmeldt-for-afsendelse-af-uanmodede-pakker-og-krav-om-betaling

Neytendastofa hvetur því neytendur til að greiða ekki fyrir vörur sem þeim kunna að berast án þess þess að samningur um kaup á vörunum liggi fyrir og senda stofnuninni ábendingar ef þeir telja að viðskiptahættir séu andstæðir lögum.

TIL BAKA