Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa setur sölubann á "spinnera"

12.07.2017

FréttamyndNeytendastofa hefur sett sölubann á spinnera (þyrilsnældur) hjá þremur innflytjendum þar sem þeir gátu ekki að sýnt fram á öryggi þeirra og að varan væri í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Auk þess sem varúðarmerkingar og upplýsingar á umbúðum voru ófullnægjandi.

Ríkar kröfur eru gerðar til framleiðslu leikfanga og varúðarmerkinga sem á þeim eiga að vera. Öll leikföng sem markaðssett eru hér á landi eiga að vera CE merkt og til staðar eiga að vera gögn sem sanna að þau uppfylli öryggiskröfur og staðfesta að merkingin eigi rétt á sér. Á umbúðum leikfanga eiga að vera upplýsingar um framleiðanda, heimilisfang hans og vörunúmer svo hægt sé að rekja uppruna vörunnar. Þá eiga leikföng sem ekki eru ætluð börnum yngri en þriggja ára á að bera myndmerki og viðvörun þess efnis. Slík varúðarmerking á að vera rauð og henni eiga að fylgja viðvörunarorð sem skýra frá því af hverju varan er ekki ætluð börnum yngri en þriggja ára. Í þessu tilfelli hefði þurft að vara við köfnunarhættu. Þessar varúðarleiðbeiningar eiga að vera á íslensku.

Spinnerar geta verið hættulegir ungum börnum ef þeir t.d. detta í gólfið og smáir hlutir brotna frá sem valdið geta köfnunarhættu. Þá er óvíst um efnainnihald spinnera og hvort þeir standist þær kröfur sem gerðar eru til efnainnihalds leikfanga.

Neytendastofa og önnur stjórnvöld sem fara með eftirlit með öryggi vöru á Evrópska efnahagssvæðinu eru um þessar mundir að fjarlæga af markaði spinnera sem ekki fullnægja kröfum. Mörg hundruð þúsund eintök hafa verið tekin af markaði að undanförnu vítt og breitt á Evrópska efnahagssvæðinu og vörum einnig vísað frá í tolli í EES-ríkjum.

Nálgast má ákvarðanirnar hér

TIL BAKA