Fara yfir á efnisvæði

Bakarí þurfa að bæta verðmerkingar

18.07.2017

Neytendastofa gerði athugun á ástandi verðmerkinga í 39 bakaríum á höfuðborgarsvæðinu í júní s.l. Athugað var hvort verðmerkingar væru í lagi í borði, gos- og mjólkurkælum og öðrum hillum sem voru til staðar.
Athugasemdir voru gerðar við 22 bakarí, sérstaklega var tekið eftir að vörur sem voru á afgreiðsluborði eða stökum borðum í versluninni voru oft óverðmerktar. Þá var ástand á verðmerkingum í kælum mjög oft ábótavant.
Augljóst er að verðmerkingar í bakaríum eru langt frá því að vera viðunandi og þurfa fyrirtækin að fara vel yfir verðmerkingar og verklag í bakaríum sínum og bregðast fljótt við tilmælum Neytendastofu til að forðast sektir. Neytendastofa fór síðast í verðmerkingaeftirlit í bakarí árið 2015 og virðist þörf á framkvæma það oftar til þess að verðmerkingar séu í viðunandi horfi.
Við viljum hvetja neytendur til að halda áfram að senda inn ábendingar í gegnum heimasíðu Neytendastofu, www.neytendastofa.is.

TIL BAKA