Fara yfir á efnisvæði

Skorkort neytendamála 2017: Þekking íslenskra neytenda á réttindum sínum eykst

25.07.2017

Skorkort neytendamála fyrir árið 2017 hefur verið birt. Í skorkortinu, sem gefið er út af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eru neytendamarkaðir metnir út frá þremur lykilþáttum: þekkingu og trausti; samræmi við reglur og eftirlit; kvartanir og úrlausn þeirra. Þar er einnig farið yfir framfarir á innri markaði EES út frá sjónarhóli neytenda.

Helstu niðurstöður skorkortsins eru þær að neytendur eiga í auknum mæli viðskipti á netinu og traust þeirra til netverslana hefur aukist verulega, sérstaklega þegar litið er til viðskipta yfir landamæri. Seljendur eru, aftur á móti, enn hikandi við að selja vörur sínar yfir landamæri. Þá má einnig nefna að aðstæður neytenda hafa batnað til muna sem að mestu má rekja til aukinnar þekkingar og trausts neytenda á því að seljendur virði réttindi þeirra.

Þegar litið er á niðurstöður skorkortsins fyrir Ísland má helst nefna að þekking neytenda á réttindum sínum hefur aukist frá síðustu könnun. Þá sýnir könnunin að þekking neytenda að því er varðar óumbeðnar vörur er sú mesta hér á landi af öllum þeim 30 ríkjum sem könnunin náði til.

Hér á landi er traust neytenda til umhverfisfullyrðinga hins vegar með lægra móti en annarsstaðar.

Íslenskir neytendur bera mikið traust til kæru- og úrskuðanefnda, þrátt fyrir að traust til þeirra á öllu EES-svæðinu hafi lækkað verulega frá árinu 2011. Á móti þessu góða trausti íslenskra neytenda kemur að þekking seljanda á tilvist kæru- og úrskurðanefnda er minnst hér á landi af öllum ríkjunum 30.

Neytendastofa fagnar því að þekking neytenda á réttindum sínum hefur aukist eins og skorkortið sýnir en ljóst er að vinna þarf að því að bæta þekkingu seljanda.

Skorkort neytendamála ásamt bakgrunnsgögnum eru aðgengilegt hér: http://ec.europa.eu/newsroom/just/item-detail.cfm?item_id=117250

Þá má finna fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um skorkortið hér: http://europa.eu/rapid/press-release_IP-17-2109_en.htm

TIL BAKA