Fara yfir á efnisvæði

Sölubann á „spinnera“ hjá Hagkaup

08.09.2017

Fréttamynd

Neytendastofa hefur sett sölubann á þyrilsnældur (e. spinner) hjá Hagkaup þar sem ekki var sýnt fram á öryggi vörunnar og að hún væri í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Í niðurstöðum ákvörðunarinnar kemur fram að CE-merkingu hafi vantað á vöruna, auk viðvörunar um að varan væri ekki ætluð börnum yngri en þriggja ára og viðvörunar vegna köfnunarhættu. Þá var ekki sýnt fram á öryggi þyrilsnældnanna með þeim gögnum sem lögð voru fram í málinu.

CE-merki er yfirlýsing ábyrgðaraðila um að varan hafi verið prófuð í samræmi við gerðar kröfur og uppfylli grunnkröfur í tilskipunum, reglugerðum og lögum um öryggi leikfanga. Neytendastofa vill vekja athygli neytenda á því að leikföng sem eru til sölu á Íslandi þurfi að vera CE-merkt, það á einnig við um leikföng sem keypt eru í netverslunum og leikföng sem eru boðin neytendum endurgjaldslaust. Innflytjanda leikfangs og dreifingaraðila ber að tryggja að leikfang sé ekki sett á markað nema að það beri CE-merki.

Þá áréttaði stofnunin í ákvörðun sinni að reglur um öryggi leikfanga eigi við um öll leikföng sem verslunin hafi til sölu og vörur með sambærilega ágalla sé ekki heimilt að markaðssetja á Íslandi. Hagkaup var gert að eyða öllum eintökum þyrilsnældna sem enn kunni að vera til á vörulager.

Tekið er við ábendingum um leikföng sem ekki eru CE-merkt hjá Neytendastofu.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA