Fara yfir á efnisvæði

Snuð með nafni

29.09.2017

Neytendastofu hafa borist þó nokkrar tilkynningar um snuð, þar sem túttan er að losna af eða er við það að losna. Þessi tegund af snuði er pöntuð á netinu á breskri síðu og er hægt að biðja um að þau séu merkt. Vinsælt er að setja nafn barnsins á snuðin. Þar sem snuðin fást ekki á Íslandi hefur Neytendastofa leitað upplýsinga hjá systurstofnunum sínum á Norðurlöndunum. Við prófanir á snuðunum hefur ekkert komið í ljós sem bendir til að þau séu hættuleg börnum. Aftur á móti ef snuðin eru gömul þá er hætta á að túttan fari að losna en líftími snuðs er aðeins um 1-2 mánuðir. Líklegast þykir að þegar um er að ræða snuð sem keypt eru með nafni barnsins á netinu, þá séu þau notuð lengur en mælt er með.

Neytendastofa vill beina þeim tilmælum til foreldra og annarra forráðamanna að fara eftir leiðbeiningum og endurnýja snuðin eftir 1-2 mánuði og henda þeim gömlu. Þá eigi að toga reglulega í túttuna, til að athuga hvort að hún sé að losna. Auk þess vill Neytendastofa benda fólki á að kaupa snuð sem henta aldri barnsins en ekki of lítil snuð, því þau geta verið hættuleg fyrir börn.

TIL BAKA