Fara yfir á efnisvæði

Ófullnægjandi upplýsingar um fasteignalán til neytanda

03.08.2018

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun vegna ófullnægjandi upplýsingagjafar Frjálsa Fjárfestingarbankans hf. um fasteignalán til neytanda í erlendri mynt. Mál þetta hófst með kvörtun frá neytanda vegna tveggja lánssamninga við félagið sem höfðu verið framseldir til Arion banka. Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að Frjálsi Fjárfestingarbankinn hafi brotið gegn lögum með því að tilgreina ekki heildarlántökukostnað og árleg hlutfallstölu kostnaðar á fasteignaláni í erlendri mynt. Ennfremur hafi fyrirtækið brotið gegn lögum með því að tilgreina ekki í skilmálum um endurskoðun vaxtaálags við hvaða aðstæður vaxtaálag geti breyst.
Í niðurstöðu Neytendastofu kom fram að lánssamningarnir hafi verið samdir af Frjálsa Fjárfestingarbankanum sem ekki sé starfræktur í dag. Þá hafi samningar á þessu formi verið dæmdir ólögmætir og því ljóst að nýr kröfuhafi, Arion banki hf., veiti ekki eða taki við sambærilegum samningum. Af þessum ástæðum og með hliðsjón af niðurstöðu málsins taldi Neytendastofa ekki tilefni til að grípa til frekari aðgerða gagnvart Arion banka í þessu máli.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA