Fara yfir á efnisvæði

Sölu- og afhendingarbann á JA-RU leikföngum

22.08.2018

Fréttamynd

Í kjölfar ábendingar sem Neytendastofu barst nýlega fóru fulltrúar á vegum stofnunarinnar til að kanna leikföng frá framleiðandanum JA-RU sem seld voru í verslunum hér á landi.

Við skoðun kom í ljós að leikföngin voru ekki með viðeigandi merkingar sem eiga að sýna neytendum að varan sé í lagi. Í framhaldinu lagði Neytendastofa sölu- og afhendingarbann á vöruna.

Það er bannað að selja leikföng í Evrópu sem eru ekki CE merkt. Merkið má aðeins setja á vörur sem uppfylla ákveðin skilyrði, s.s. um merkingar og um að leikföng verði að vera við hæfi barna þannig að ekki sé hætta á að börn slasi sig á þeim. Einnig mega ekki vera hvassar brúnir á leikföngum, eða hætta á börn klemmi sig á þeim. Ennfremur má efnainnihald ekki vera skaðlegt. Þá eru sérstaklega strangar kröfur gerðar ef leikfangið er ætlað börnum yngri en 3 ára.

Neytendastofa vill brýna fyrir neytendum að skoða vel hvort leikfangið sem versla á sé ekki örugglega CE merkt.

Á mynd með fréttinni má sjá CE-merkið á vörum sem fundust í verslununum. Á síðustu myndinni má svo sjá CE-merki af leikfangi sem var réttilega merkt.

TIL BAKA