Bann við óréttmætri mismunun eftir þjóðerni í netviðskiptum

23.08.2018

 Ný reglugerð ESB gerir seljendum vöru og þjónustu á netinu skylt að veita öllum neytendum rétt til viðskipta á Evrópska efnahagssvæðinu. Mörg dæmi eru þekkt um að neytendur hafa ekki getað fengið vöru eða þjónustu keypta nema þeir séu búsettir á því landi sem netverslunin er starfrækt eða seljandi hefur einhliða ákveðið að selja til ákveðinna landa. Reglugerðin setur nú bann við slíkum viðskiptaháttum nema mismunun sé rökstudd og réttlætanleg. Framvegis eiga neytendur því að geta keypt vörur, leigt bifreiðar eða keypt miða á tónleika án þess að seljendur geti takmarkað netsölu til íbúa í einu eða fáum aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í könnun sem gerð var árið 2015 kom í ljós að meira en 60% af heimasíðum netverslana mismunuðu neytendum og seldu ekki vörur eða þjónustu yfir landamæri á EES-svæðinu.

Í tilkynningu frá framkvæmdastjórn ESB hafa verið nefnd þrjú tilvik í dæmaskyni þar sem ekki er réttlætanlegt að mismuna neytendum á grundvelli þjóðernis:

Sala á vörum án þess að henni fylgir skylda til afhendingar til neytanda. Dæmi: Belgískur neytandi óskar eftir því að kaupa kæliskáp og finnur besta tilboðið á þýskri heimasíðu. Neytandinn getur pantað vöruna og gert ráðstafanir til þess að sækja hana til seljanda eða sjálfur gengið frá því að fá hana senda heim til sín.

Sala á þjónustu sem er afhent rafrænt. Dæmi: Neytandi í Búlgaríu óskar eftir því að fá keypta hýsingarþjónustu fyrir heimasíðuna sína hjá fyrirtæki sem staðsett er á Spáni. Hann á nú lagalegan rétt og getur fengið aðgang að þessari þjónustu, skráð sig og keypt þjónustuna án þess að hann þurfi að greiða meira en aðrir viðskiptavinir sem búa á Spáni.

Sala á þjónustu sem er veitt á ákveðnum stað. Dæmi: Ítölsk fjölskylda getur framvegis keypt sér miða í skemmtigarð í Frakklandi beint og milliliðalaust án þess að vera vísað yfir á ítalska heimasíðu.

Aðildarríkjum ESB er skylt að innleiða hinar nýju reglur eigi síðar en 2. desember 2018 en innleiðing á Íslandi mun væntanlega eiga sér stað nokkru síðar.

Fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB í heild er unnt að lesa hér

 

TIL BAKA