Fara yfir á efnisvæði

Auðkennið Veiðimaðurinn

21.09.2018

Neytendastofu barst erindi Bráðar ehf. þar sem kvartað var yfir notkun Veiðimannsins ehf. á heitinu „Veiðimaðurinn“. Vísaði Bráð til þess að félagið ætti skráð orð- og myndmerkið VEIÐIMAÐURINN 1940 og hefði forgangsrétt til heitisins. Krafðist Bráð þess að Neytendastofa bannaði Veiðimanninum notkun heitisins. Veiðimaðurinn hafnaði kröfu Bráðar og sagðist leiða rétt sinn til óskráðs vörumerkis og einkafirma sem afsalað hefði verið til fyrirtækisins. Réttindin væru eldri en skráning vörumerkis Bráðar.

Neytendastofa taldi að fyrirtækin væru keppinautar á sama markaði og að heitið væri nægilega sérstakt til að geta aðgreint eiganda vörumerkisins frá keppinautum. Þar sem fullkomin hljóðlíking væri með auðkennunum taldi Neytendastofa að notkun Veiðimannsins á heitinu ylli ruglingshættu við vörumerki Bráðar sem hefði fyrr öðlast rétt til þess. Var Veiðimanninum bönnuð notkun heitisins og gert að afskrá heitið í firmaskrá.

Ákvörðun Neytendastofu má nálgast hér.

TIL BAKA