Fara yfir á efnisvæði

Auðkennið MY LETRA

15.10.2018

Neytendastofu barst erindi Hvergilands ehf. f.h. verslunarinnar Myconceptstore, þar sem kvartað var yfir notkun vefverslunarinnar My Letra á auðkenninu My Letra yfir skartgripi sem væru til sölu hjá vefversluninni. Vísaði Myconcepstore m.a. til þess að fyrirtækið hefði framleitt skartgripi undir heitinu MY Letter frá árinu 2015. Heiti vöru My Letra og varan bæri með sér að verið væri að afrita vöru Myconceptstore. Taldi Myconceptstore brotið á sér með hliðsjón af framangreindu.

My Letra mótmælti því að hætta væri á ruglingshættu milli fyrirtækja enda munur á nöfnum og einkennum þjónustu og vöru fyrirtækjanna. Benti My Letra á að Myconceptstore hefði ekki einkarétt á sölu eða hönnun hálsmena sem innihéldu bókstafi. Heiti varanna væru algeng, almenn og ekki sérstaklega lýsandi fyrir starfsemi aðila.

Taldi Neytendastofa að þótt ákveðin líkindi væru með skartgripunum og fyrirtækin í samkeppni hvað sölu á þeim varðaði yrði að horfa til mismunandi starfsemi og framboðs fyrirtækjanna í heild sinni og þjónustu við viðskiptavini sem væri með ólíkum hætti. Þá væru firmaheiti fyrirtækjanna ólík. Þrátt fyrir notkun á sama orðmerkinu „my“ og „letra“ eða „letter“ þá greini mikið á milli auðkennanna í heild sinni. Auðkennin væru of almenn og lýsandi fyrir vöruna og skorti sérkenni til að geta talist njóta einkaréttar fyrir notkun og verndar ákvæðisins. Sú vara sem báðir aðilar seldu, væri seld af ýmsum aðilum með nafni sem væri oftar en ekki skírskotun í eðli vörunnar. Að mati Neytendastofu komu ekki fram nægilega veigamiklar ástæður til þess að veita annars sérkennalitlu auðkenni vernd ákvæðisins og að ruglingshætta væri ekki fyrir hendi.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA