Fara yfir á efnisvæði

Skjalasaga í 100 ár til Þjóðskjalasafns Íslands

28.12.2018

Fréttamynd

Þann 14. nóvember 1917 staðfesti Kristján tíundi konungur Danmerkur lög nr. 78/1917 um mælitæki og vogaráhöld sem tóku gildi 1. janúar 1919. Í lögunum var kveðið á um að setja skyldi á stofn „löggildingarstofu“ í Reykjavík sem skyldi annast einkasölu og löggildingu mælitækja, einnig verklegt eftirlit með mælitækjum hér á landi. Hverri verslun sem mældi varning eða vigtaði bar skylda til að nota löggilt mælitæki og sæta eftirliti stjórnvalda. Löggildingarstofa var því ein elsta stjórnsýslu – og eftirlitsstofnun hins fullvalda íslenska ríkis og tók til starfa 1. janúar 1919.

Neytendastofa var stofnuð árið 2005 við endurskipulagningu á starfsemi Löggildingarstofunnar með það að markmiði að auka neytendavernd og opinbert eftirlit með því að reglum á sviði neytendaverndar sé framfylgt í verslun og viðskiptum. Pökkun og skráning á öllum opinberum skjölum frá árinu 1919 hefur staðið yfir meðfram öðrum verkefnum undanfarin ár. Það er nú ánægjulegt en einnig léttir að nú hefur öllum gögnum verið komið fyrir í öruggri og varanlegri varðveislu hjá Þjóðskjalasafni Íslands.

Eins og kemur fram í lögunum frá 1917: Vjer Christian hinn Tíundi af guðs náð Danmerkur konungur, Vinds og Gauta, hertogi í Sljesvík, Holtasetalandi, Stórmæri, Þjettmerski, Láenborg og Aldinborg.

Gjörum kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og Vjer staðfestum þau með samþykki Voru.

TIL BAKA